Fara í efni
30.03.2006 Fréttir

Stóra upplestrarkeppnin

Bjartur Týr Ólafsson nemandi í Barnaskólanum varð í fyrsta sæti.Lokahátíð Stóru
Deildu

Bjartur Týr Ólafsson nemandi í Barnaskólanum varð í fyrsta sæti.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin 28. mars sl. í Félagsheimilinu við Heiðarveg. Nemendur úr 7. bekkjum Barnaskólans og Hamarsskóla lásu upp kafla úr sögunni ?Vestur í Bláinn" eftir Kristínu Steinsdóttur. Því næst lásu þeir ljóð eftir Birgi Svan Símonarson og loks lásu allir ljóð sem þeir höfðu valið sjálfir. Allir upplesararnir voru verðlaunaðir með bókagjöf frá Máli og menningu.

Þeir nemendur sem lentu í þremur efstu sætunum hlutu peningaverðlaun frá Sparisjóðnum og afhenti Ólöf Jóna Þórarinsdóttir verðlaunin. Andrés Sigurvinsson færði nemandanum sem varð í 1. sæti veglega bókagjöf frá fræðslu- og menningarsviði Vestmannaeyjabæjar. Nemendurnir sem lentu í þremur efstu sætunum voru Bjartur Týr Ólafsson nemandi í Barnaskólanum, Guðný Bernódusdóttir nemandi í Hamarsskóla og Kristjana Sigurðardóttir nemandi í Barnaskólanum. Auk þess voru veitt aukaverðlaun til Katerínu Hlynsdóttur nemanda Hamarsskóla fyrir að lesa óðafinnanlega og fyrir hvað hún hefur náð góðum tökum á íslenskunni þó að hún hafi ekki búið á Íslandi nema í nokkur ár.

Guðmundur Davíðsson nemandi Tónlistarskólans spilaði tvö lög á saxofón. Verslunin Vöruval bauð til ávaxtaveislu í hléi. Einnig voru drykkir í boði Vöruvals og Mjólkursamsölunnar. Áheyrendur, sem fylltu salinn í leikhúsinu, báru lofsorð á frammistöðu nemenda og voru þeir afar ánægðir með hversu vel tókst til með hátíðina.

Fræðslu- og menningarsvið þakkar öllum þeim sem komu að hátíðinni fyrir þeirra framlag og óskar nemendum, foreldrum þeirra, kennurum og skólastjórnendum innilega til hamingju með frábæran árangur.

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar