Hrafnkelssaga Freysgoða - Sigga og skessan á fjallinu sýnd í Bæjarleikhúsinu í dag
Nemendum í leik- og grunnskólum er boðið upp á leiksýningar Stoppleikhússins í dag á vegum Vestmannaeyjabæjar. Eins og venja hefur verið undanfarin ár hefur fræðslu- og menningarsvið reynt að fá hingað leikhópa til að sýna fyrir börn og unglinga svo og fá þau heimsókn tónlistarfólks s.s. Tónlist fyrir alla ofl. Skemmst er að minnast sýningar á barnaóperunni Undir drekavæng. Nú er á fjölunum hjá Leikfélagi Vestmannaeyja leikritið Skilaboðaskjóðan. Það er markmið að kynna börnum og unglingum hér í bæ leik - og tónlist eftir föngum og laða með því enn fleiri til þátttöku. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að leiklist verður orðið fag innan grunnskólanna í anda þeirra móðurskóla sem fara með þau mál á höfuðborgarsvæðinu.
Hrafnkelssaga Freysgoða eða Hrafnkatla, er í hópi þekktustu Íslendingasagna. Þar segir frá því þegar Hrafnkell Freysgoði drepur Einar Þorbjarnarson smalamann fyrir þá sök að ríða hestinum Freyfaxa í leyfisleysi. Í kjölfarið stefnir Sámur Bjarnason Hrafnkeli fyrir vígið og dregur það mál mikinn dilk á eftir sér.
Leiksýningin er ætluð ungmennum í efstu bekkjum grunnskóla og nema á framhaldsskólastigi.
Fyrir aldurinn 13-20 ára
· Sýningartími: 40 mínútur.
· Höfundur leikgerðar: Valgeir Skagfjörð.
· Leikarar: Eggert Kaaber og Sigurþór Albert Heimisson.
· Leikmynd og Búningar: Vignir Jóhannsson.
· Leikstjóri: Valgeir Skagfjörð.
Hver man ekki eftir sögupersónum Herdísar Egilsdóttur: ?Sigga og skessan í fjallinu"? Þessar þjóðþekktu og skemmtilegu persónur eru nú að koma á íslenskt leiksvið í glænýrri leikgerð Stoppleikhópsins. Byggir leikritið á fyrstu bókinni þar sem Sigga og skessan kynnast og verða vinkonur. Afmælisveisla Siggu kemur við sögu en hún býður síðan skessunni í veisluna við mikinn fögnuð afmælisgesta.
· Höfundur:Herdís Egilsdóttir.
· Leikgerð: Stoppleikhópurinn.
· Tónlist og leikstjórn:Valgeir Skagfjörð.
· Leikarar:Eggert Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir.
· Brúðugerð og aðstoð við leikmynd:Katrín Þorvaldsdóttir.
· Söngtextar: Herdís Egilsdóttir.
Sýningartími:30 mínútur.
Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Vestmannaeyja.