Fara í efni
07.11.2005 Fréttir

Stefnumótunarfundir

Verkefnisstjóri boðar til stefnumótunarfunda á fimmtudaginn 10. nóvember og hefur fræðslu- og menningarsvið se
Deildu

Verkefnisstjóri boðar til stefnumótunarfunda á fimmtudaginn 10. nóvember og hefur fræðslu- og menningarsvið sent hlutaðeigendum tölvupósta þar sem fram koma tímasetningar og staðsetning fundanna. Viljum hvetja hlutaðeigendur að mæta nú vel á þessa fundi og leggja sín lóð á vogarskálarnar við undirbúning að mótun nýrrar skóla- og æskulýðsstefnu fyrir Vestmannaeyjabæ. Stefnumótunarfundum er ætlað að draga fram þau markmið sem stefna ber að til framtíðar í skóla- og æskulýðsmálum í Vestmannaeyjum. Fundir verða haldnir með kennurum leik-, grunn- og tónlistarskóla, fulltrúum nemenda, fulltrúum foreldra, forystumönnum íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafélaga og fulltrúum úr stjórnkerfinu. Gert er ráð fyrir að hver fundur taki eina og hálfa klukkustund. Á fundunum verður sjónum einkum beint að eftirfarandi þáttum skóla- og æskulýðsmála:

  • Heilbrigði og líðan
  • Nám og kennsla
  • Samskipti
  • Forysta og lýðræðisleg þátttaka
  • Ræktun mannauðs
  • Náms- og starfsumhverfi

Fundarmenn fá það hlutverk að ræða sín á milli þau markmið sem þeim finnst mikilvægt að unnið sé að og hvaða leiðir fara má til að ná þeim. Fundarmönnum verður skipt í umræðuhópa og fær hver hópur eitt af ofangreindum viðfangsefnum til umfjöllunar. Gert er ráð fyrir að hver hópur skili tillögum frá sér í lok fundar. Þær tillögur verða nýttar við endanlega gerð skóla- og æskulýðsstefnu Vestmannaeyjabæjar.

Fh. verkefnisstjórnar, Trausti Þorsteinsson, verkefnisstjóri.

Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Vestmannaeyjabæjar.