Allir sem koma að skóla- eða menntunarstarfi með einhverjum hætti geta hlotið verðlaunin, t.a.m. leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, símenntunarstöðvar, háskólastofnanir, kennarar, einstaklingar eða hópar, skólaskrifstofur, sveitarfélag/skólanefndir og foreldrafélög.
Menntaverðlaun Suðurlands voru afhent í 13. sinn þann 14. janúar sl. á hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands sem var haldinn að hluta til í Fjölheimum á Selfossi og að hluta í fjarfundi. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin rafrænt.
Sex tilnefningar til Menntaverðlauna Suðurlands bárust fyrir árið 2020 og að þessu sinni hlutu Snjólaug Elín Árnadóttir og Unnur Líf Ingadóttir Imsland, kennarar við Grunnskóla Vestmannaeyja, verðlaunin fyrir verkefnið Út fyrir bókina. Þær stöllur hafa sýnt frumkvæði og metnað í starfi með því að hanna fjölbreytt námsefni þar sem kennslan er færð út fyrir bókina með það að markmiði að gera námið áhugavert, fræðandi og skemmtilegt. Öll verkefnin má nálgast ókeypis á heimasíðu verkefnisins: https://utfyrirbokina.is/
Innilega til hamingju Snjólaug Elín og Unnur Líf.
