Helstu niðurstöður eru þær að loðnubrestur hefur bein áhrif á 350 starfsmenn og ígildi 60 ársverka. Tapaðar launtekjur í Vestmannaeyjum eru a.m.k. 1.000 m.kr. Tekjutap útgerðarfyrirtækja er um 7.600 m.kr. og annara fyrirtækja um 900 m.kr. Vestmannaeyjabær og Vestmannaeyjahöfn verða af um 160 m.kr. sökum þessa.
Á mánudaginn var kynnti bæjarstjóri greininguna fyrir sjávarútvegsráðherra.
Bæjarráð fundaði í gær þar sem m.a. kom fram að áhrif loðnubrestsins 2019 í Vestmannaeyjum væru mjög mikil á samfélagið allt, ekki bara þá sem starfa í sjávarútvegi. Fyrirtæki og fólk í Vestmannaeyjum hafi tekið í sig mikið fjárhagshögg vegna ársins 2019, en annar loðnubrestur yrði Vestmannaeyjum mjög erfiður. Rúmlega 30% allra veiðiheimilda í loðnu eru hjá fyrirtækjum í Vestmannaeyjum. Afleiðingar af því er ekki bara mikið tekjutap samfélagsins alls, heldur eru töluverðar líkur á að markaðir tapist sökum þessa. Loðnubrestur hefði ekki aðeins áhrif á Vestmannaeyjar og þau sveitarfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, heldur þjóðarbúið í heild. Það er lykilatriði að stjórnvöld beiti sér fyrir auknum rannsóknum á loðnu. Einnig vöktun og leit að loðnu næstu vikur til þess að hægt sé að mæla það magn af loðnu sem er við Ísland og vonandi gefa út kvóta í framhaldinu.
Verði ekki gefin út loðnukvóti annað árið í röð munu bæjaryfirvöld óska eftir fundi með sjávarútvegsráðherra, sveitarstjórnaráðherra og fjármálaráðherra til að ræða mögulegar mótvægisaðgerðir við aflabresti.
Skýrsluna er hægt að finna hér