Bæjarstjóri og hafnarstjóri fóru nýverið yfir tillögu til þingsáætlunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026–2040 og fimm ára aðgerðaáætlun 2026–2030 í bæjarráði og framkvæmda- og hafnarráði. Í yfirferðinni kom fram að það hallar verulega á Vestmannaeyjar og uppbyggingu innviða:
Helstu áhyggjuefni
- Skerðing á framlögum til reksturs ferja úr 1,7 ma.kr. í 1,4 ma.kr. sem gæti haft áhrif á þjónustu Herjólfs. Vestmannaeyingar munu ekki sætta sig við slíka skerðingu.
- Dýpkun í Landeyjahöfn: Áætlunin gerir ráð fyrir 600 m.kr., en í fjárlögum eru aðeins 350 m.kr. Þörfin er nær milljarði til að uppfylla þær kröfur sem bæjaráð telur að þurfi að vera í útboði.
- Ný ekjubrú fyrir Herjólf: Framkvæmd frestast til 2029 þrátt fyrir að Vegagerðin telji hana forgangsverkefni. Frestuninn er óviðunandi.
- Framkvæmdir á Básaskersbryggju frestast til 2029, en átti að hefjast haustið 2026. Þetta er óviðunandi þar sem um öryggismál er að ræða.
- Hlutfall ríkisstyrkja til hafnarframkvæmda lækkar úr 60% í 40% frá 2028, sem mun hafa veruleg áhrif á fjármögnun og kaup á nýjum dráttarbát.
- Nýr dráttarbátur ekki inni í drögum, þrátt fyrir að núverandi bátur sé frá 1998 og eigi erfitt með að sinna stærri skipum.
Það eru mikil vonbrigði með það að uppbygging samgönguinnviða og hafnarframkvæmda sé ekki í samræmi við þau loforð sem gefin hafa verið, m.a. að hækkun veiðigjalda yrði nýtt til að bæta innviði á þeim svæðum sem mest gjaldtaka bitnar á. Ljóst er að Vestmannaeyjahöfn fær minni styrki en aðrar hafnir á landinu á undanförnum árum gangi þetta eftir.
Vestmannaeyjabær mun senda ítarlega umsögn þegar áætlunin kemur til þinglegrar meðferðar og óska eftir fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis til að fara yfir málið.