Kynferðisofbeldi gegn börnum hefur verið í brennidepli að undanförnu og lögð hefur verið mikil áhersla á fræðslu og forvarnir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að börn lendi í þeim hremmingum sem kynferðisofbeldi er. Eitt af hlutverkum barnaverndar er að sjá um slíkar forvarnir og að vernda börn sem standa veikum fæti af einhverjum orsökum.
Annað hlutverk hefur e.t.v. ekki fengið jafn mikla athygli en það er þjónusta við þá sem þegar hafa lent í þeim hörmungum sem slíkt ofbeldi hefur í för með sér, þ.e. uppkomin fórnarlömb kynferðisofbeldis. Það er vitað mál að börn sem lenda í slíku bera örin alla ævi og mikilvægt að við gleymum ekki þeim sem eru að glíma við afleiðingarnar á fullorðinsaldri og eru jafnvel sjálfir að fást við hið vandasama verkefni að ala upp og vernda eigin börn.
Stígamót sem stofnuð voru 1990 hafa frá upphafi lagt áherslu á að styðja við einstaklinga sem bera örin frá barnæsku. Nú hefur Félags- og fjölskyldusvið Vestmannaeyjabæjar, Heilbrigðisstofnunin í Vestmannaeyjum og Landakirkja ákveðið að sækja eftir aðstoð til Stígamóta og freista þess að koma hér á fót sjálfshjálparhópum fyrir þá einstaklinga sem þurftu að sæta kynferðislegu ofbeldi í æsku. Verkefni þetta er hluti af nærhópastarfi sem hefur staðið yfir undanfarin ár í samvinnu ofangreindra aðila þar sem unnið hefur verið með mismunandi útgáfur af sorgarvinnu einstaklinga sem hafa átt sameiginlega sorgarreynslu að baki, s.s. missi maka, missi barns osfrv. Kynferðislegt ofbeldi og svipting þess trausts og verndar sem börnum er nauðsynlegt má fyllilega líkja við alvarlegt áfall eins og ótímabæran ástvinamissi og eðlilegt að sorgarferli eigi sér stað, en við þessar aðstæður getur ferlið tekið lengri tíma en í ?hefðbundinni" sorgarvinnslu.
En hvað er markmiðið með slíkum sjálfshjálparhópum og hvað gera þeir? Á heimasíðu Stígamóta (stigamot.is) má m.a. finna neðangreindar upplýsingar:
Sjálfshjálparhópar
Frá upphafi starfssemi Stígamóta hafa sjálfshjálparhópar verið kjarninn í starfsseminni. Boðið er upp á marga ólíka hópa.
Markmiðið hópanna er:
· að læra að þekkja tilfinningar sínar
· að öðlast sjálfstraust
· að fá að vita að þetta er ekki manni sjálfum að kenna, ofbeldismaðurinn er eingöngu ábyrgur
· að finna að maður er ekki einn með sínar tilfinningar
· að öðlast nýja sýn á kynferðisofbeldið og sjálfan sig
· að gera sér grein fyrir hverjar afleiðingar ofbeldisins eru og læra að takast á við þær
· að saga okkar er ekki aðalatriðið heldur afleiðingarnar á líf okkar í dag
· að læra að standa með sér
· að rjúfa einangrun
· að læra að treysta
Í þessum hópum koma einstaklingarnir saman til að sækja styrk til að takast á við vandamálin, sem rekja má til afleiðinga ofbeldisins. Reynslan af sjálfhjálparhópunum hefur verið mjög góð. Sjálfshjálparhóparnir eru þátttakendum að kostnaðarlausu.
Fimmtudaginn 30. mars n.k. munu starfsmenn frá Stígamótum heimsækja okkur og vinna með okkur allan daginn. Morguninn fer í fræðslu og undirbúningsvinnu með stýrihópnum sem ætlar að sjá um sjálfshjálpar-/nærhópastarfið, síðdegið mun verða notað til námskeiðshalds og fræðslu fyrir starfsfólk félagsþjónustunnar, Landakirkju, heilbrigðisstofnunar, skólakerfisins, sýslumannsembættis og fleiri aðila. Um kvöldið verður síðan opinn fræðslufundur fyrir bæjarbúa í safnaðarheimilinu sem við hvetjum alla til að mæta á. Kostnaður verður greiddur af Félags- og fjölskyldusviði, Landakirkju og Heilbrigðisstofnun og þurfa þátttakendur ekki að greiða neitt fyrir fræðsluna.
Þetta er einstakt tækifæri fyrir alla sem láta sig málið varða að koma og kynna sér málin. Eins viljum við benda á að við erum að leita að þátttakendum í sjálfshjálparhópana. Við erum þegar komin með góðan hóp af þátttakendum sem eru tilbúnir að takast saman á við þetta verkefni en við vitum að það eru fleiri þarna úti sem okkur langar til að nálgast. Viljum við hvetja þá til að koma á fræðslukvöldið og/eða hafa samband við einhvern úr stýrihópnum en í honum sitja auk undirritaðrar Hera Einarsdóttir framkvæmdastjóri Félags- og fjölskyldusviðs, Guðný Bogadóttir hjúkrunarfræðingur og prestarnir okkar, þeir sr. Þorvaldur Víðisson og sr. Kristján Björnsson.
Með von um að sjá sem flesta á fimmtudagskvöldið!
Guðrún Jónsdóttir
félagsráðgjafi