Í morgun var Sigurgeir Jónasson útnefndur bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2006. Kristín Jóhannsdóttir setti athöfnina og bauð gesti velkomna. Guðjón Ólafsson fráfarandi bæjarlistamaður afhenti Vestmannaeyjabæ listaverk sem hann ætlar að verði farandgripur til komandi bæjarlistamanna. Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs veitti gripnum viðtöku fyrir hönd bæjarins og upplýsti að yrði ráðist í að setja skildi með nöfnum þeirra 5 listamanna sem borið hafa titilinn og að sjálfögðu þeim sjötta einnig. Þakkaði hann höfðinglega gjöf. Vel var mætt á athöfnina, litla lúðrasveitin lék nokkur lög undir stjórn Eggerts Björgvinssonar og var þessi stund hin hátíðlegasta. Hér fyrir neðan má lesa ræðu Björns Elíassonar formanns menningar- og tómstundaráðs en hann tilkynnti hver hefði orðið fyrir valinu árið 2006
Ágætu gestir.
Ég vil byrja á að bjóða ykkur öll velkomin til þessarar athafnar en þetta er í 6 sinn sem bæjarlistamaður Vestmannaeyja er útnefndur. Einn hefur verið útnefndur heiðurslistamaður Vestmannaeyja og það er Ragnar Engilbertsson málari.
Eins og fram kemur í reglum um starfslaun bæjarlistamanns Vestmannaeyja þá geta einstaklingar sótt um sérstaklega eða menningar- og tómstundaráð tilnefnt bæjarlistamann að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Umsóknir og tilnefingar voru alls 5 að þessu sinni og mér er það sannur heiður að fá að greina frá samhljóða niðurstöðum menningar-og tómstundaráðs um að Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari var útnefndur sem bæjarlistamaður Vestmannaeyja fyrir árið 2006.
Ég vil biðja Sigurgeir að koma hingað og veita nafnbótinni viðtöku.
Sigurgeir Jónasson fæddist í Vestmannaeyjum 19. september 1934. Hann gekk í Barnaskóla Vestmannaeyja og síðar Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja.
Sigurgeir byrjaði mjög ungur að vinna, fyrst með skóla og t.d. var hann 10 og 11 ára að vinna í bakaríi hjá mági sínum, Ólafi Kristinssyni. Hann fór síðan að vinna hjá Bæjarútgerð Vestmannaeyja undir stjórn Sigurðar Auðunssonar og var gerður að verkstjóra þar 18 ára gamall. Þegar Bæjarútgerðin hætti fór Sigurgeir að vinna sem hafnarvörður hjá Vestmannaeyjahöfn. Síðar hóf hann störf hjá Flugfélagi Íslands og var þar samfleytt á 19da ár er hann sneri sér alfarið að ljósmyndun og hefur það verið hans aðalatvinna frá árinu 1975. Sigurgeir er algjörlega sjálfmenntaður sem ljósmyndari.
Sigurgeir hóf ljósmyndun mjög ungur að árum og eru elstu myndir hans varðveittar í albúmum úti í Álsey og er það elsta með myndum frá árinu 1947. Sigurgeir hefur lengst af starfað sem blaða- og fréttaljósmyndari.
Fyrsta myndin eftir hann birtist í dagblaðinu Tímanum árið 1958 og var af grindhvalavöðu inni í Friðarhöfn. Stærstan hluta ferils síns hefur Sigurgeir starfað sem ljósmyndari Morgunblaðsins og starfar þar enn.
Ljósmyndasafn Sigurgeirs er gríðarmikið að vöxtum og er áætlað að það samanstandi af hundruðum þúsunda ljósmynda. Safn hans frá Heimaeyjargosinu er einstakt, mikið að vöxtum og skrásetur náttúruhamfarirnar frá fyrsta klukkutíma til þess síðasta. Þá eru Surtseyjarmyndir Sigurgeirs ómetanlegar heimildir um sögu gossins. Mynd hans frá upphafsdögum gossins "Eldingamyndin" var valin ein af bestu fréttaljósmyndum heims árið 1963.
Sigurgeir hefur sem ljósmyndari í rúma hálfa öld tekið gríðarlega mikið af mannlífsmyndum í Vestmannaeyjum og á hann ómetanlegt safn af myndum af gengnum og lifandi Vestmanneyingum. Hann fann t.a.m. nýverið í safni sínu mynd af Jóni frá Brautarholti, föður Ragnheiðar Jónsdóttur, en eins og menn muna fagnaði hún100 ára afmæli sínu í desember s.l.
Sjómennska og sjávarútvegur hafa alla tíð verið nátengd Vestmannaeyjum og sama má segja um Sigurgeir sem ljósmyndara. Í ljósmyndasafni hans má finna margar merkar heimildir um útgerð frá Eyjum og veiði- og vinnsluaðferðir sem nú eru horfnar.
En segja má að sérgrein Sigurgeirs í ljósmyndun hafi verið fuglar og náttúra Vestmannaeyja í fræðilegu og listrænu samhengi enda myndefnið ótæmandi. Myndir í þessum flokki skipta hundruðum þúsunda og birtast eintök úr safninu reglulega í bókum og tímaritum, bæði hér á landi og víða um allan heim.
Sigurgeir hefur ásamt fjölskyldu sinni stofnað félagið Sigurgeir ljósmyndari ehf. Tilgangur félagsins er að varðveita um ókomna tíð þau ómetanlegu menningarverðmæti sem ljósmyndasafn Sigurgeirs er og um þessar mundir er unnið að því að skrá og flokka ljósmyndasafnið til að auðvelda aðgengi að því.
Um leið og ég afhendi Sigurgeiri þetta heiðursskjal í tilefni dagsins þá óska ég honum og fjölskyldu hans hjartanlega til hamingju og færi honum bestu óskir frá bæjarbúum fyrir óeigingjarnt starf í skrásetningu sögu okkar og menningar og jafnframt óska ég þeim innilega til haminjum með stofnun félagsins Sigurgeir ljósmyndari ehf. Sem hefur aðsetur sitt á annari hæð í Ísfélagshúsinu.
Björn Elíasson ,formaður menningar- og tómstundaráðs Vestmannaeyja.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.