Fræðsluráð Vestmannaeyja telur mikilvægt að skólar á vegum Vestmannaeyjabæjar skilgreini sjálfa sig sem stofnanir í fjölmenningar- og fjölhyggjusamfélagi og gæti sem slíkir að réttindum allra. Skólastarf ber því að stuðla að umburðarlyndi og tillitssemi. Þannig ber að temja nemendum virðingu fyrir einstaklingum sem hafa aðra lífsskoðun eða aðra siði en þeir sjálfir. Umburðarlyndi lærist ekki í tómarúmi.
Í lögum um grunnskóla segir að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi, kærleika og kristinni arfleið íslenskrar menningar. Fræðsluráð Vestmannaeyja telur það því skyldu skólanna að leggja sérstaka rækt við kristinfræði um leið og tekið er tillit til nemenda sem tilheyra minnihlutahópum.
Vestmannaeyjabær hvetur því til og óskar eftir áframhaldandi samstarfi við trúfélög og kirkjur í Vestmannaeyjum.