Samkomulag um nytjar og rannsóknir á lunda í Vestmannaeyjum
fyrir veiðitímabilið 2009
Vestmannaeyjabær, Náttúrustofa Suðurlands og Félag bjargveiðimanna gera með sér svohljóðandi samkomulag vegna nytja og rannsókna á lunda í Vestmannaeyjum fyrir veiðitímabilið 2009.
1. grein
Vestmannaeyjabær samþykkir að heimila lundaveiðar á tímabilinu frá og með 25. júlí til og með 29. júlí 2009. Með þessu hefur veiðitímabilið verið stytt úr 55 dögum niður í 5. Ákvörðun þessi er tekin í ljósi válegrar stöðu lundastofnsins.
2. grein
Náttúrustofa Suðurlands sem lagt hefur til veiðistopp mun veita lundarannsóknum forgang umfram aðrar rannsóknir í sumar og þar með talið nýta sér hina takmörkuðu veiði sem fyrirhuguð er til rannsókna. Sérstaklega verður horft til rannsókna á varpi og afkomu pysja. Auk þess verður horft til fæðuöflunar og annarra þátta er lúta að viðkomu lundastofnsins. Niðurstöður verða gerðar aðgengilegar á vef stofnunarinnar og kynntar sérstaklega fyrir bjargveiðimönnum og öðrum áhugasömum með ráðstefnu í haust.
3. grein
Félag bjargveiðimanna heitir ábyrgum og takmörkuðum veiðum þannig að lundin njóti ætíð vafans.
4. grein
Öllum veiðimönnum og veiðifélögum er skylt að skila veiðitölum til Náttúrustofu Suðurlands í lok veiðitímabilsins, eigi síðar en 1. september 2009. Allur afli skal einnig aðgengilegur vísindamönnum hjá Náttúrustofu Suðurlands til aldursgreininga og rannsókna.
5. grein
Líkt og í fyrra verður veiði á heimalandinu bönnuð nema í gegnum veiðafélög sem hafa umsjón og eftirliti með veiðunum og greiði gjald fyrir nytjarétt líkt og önnur úteyjarfélög.
6. grein
Í almenningi, Sæfjalli, geta allir veitt sem hafa veiðikort. Veiðimenn sem veiða í almenningi ber að skila aflatölum til Náttúrustofu Suðurlands í lok veiðitímabilsins. Ekki þarf að vera meðlimur í sérstöku veiðifélagi til að mega stunda veiðar í almenningi.
7. grein
Þau félög sem ekki fylgja þessum reglum missa veiðiréttinn og verður sagt upp leigu á nytjarétti á viðkomandi svæði eða eyju.
Aðilar þeir sem að þessu samkomulagi koma –Vestmannaeyjarbær, Náttúrustofa Suðurlands og Félag bjargveiðimanna– telja einsýnt að veiðar hafi lítil áhrif á viðkomu lundastofnsins og ljóst að skýringa á viðkomubresti þurfi að leita annarstaðar. Mat undirritaðra er því að mikilvægt sé að fylgja þeirri ábyrgu afstöðu sem kemur fram í samkomulagi þessu eftir með stórauknum rannsóknum á sjófuglum og lífríki Vestmannaeyjasvæðisins. Með samkomulagi þessu samþykkja undirritaðir aðilar því að sameinast um áskorun á Umhverfisráðuneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands um að styðja Þekkingarsetur og Náttúrustofu Suðurlands í aukinn áherslu á rannsóknir á sjófuglum og lífríki Vestmannaeyja.
Samkomulagið gildir fyrir veiðitímabilið 2009 og verða þær endurskoðar fyrir næsta veiðitímabil með hliðsjón af reynslunni í ár.