Markmiðið er að skapa betri leikskóla með áherslu á velferð barna, faglegt starf og bætt starfsumhverfi.
Helstu markmið breytinganna:
Stytta vinnudag barnanna með vellíðan þeirra að leiðarljósi.
Efla faglegt starf og skapa gott námsumhverfi.
Bæta starfsumhverfi og skipulag til að efla velferð starfsfólks.
Auka faghlutfall í leikskólum.
Bregðast við auknum kostnaði vegna vaxandi þjónustu.
Í leikskólum Vestmannaeyja starfar frábært og metnaðarfullt starfsfólk sem leggur sig fram við að skapa öruggt, hlýlegt og faglegt umhverfi fyrir börnin. Leikskólaumhverfið stendur þó frammi fyrir stórum áskorunum sem þarf að bregðast við, m.a. vegna langra vinnudaga barna, aukins undirbúningstíma starfsfólks, fjölgunar orlofsdaga starfsfólks og hækkandi rekstrarkostnaðar.
Frá og með 1. janúar nk. munu eftirfarandi breytingar taka gildi:
30 tímar á viku verða gjaldfrjálsir. Foreldrar greiða fyrir umframtíma og fæði samkvæmt gjaldskrá.
Lágmarksdvalartími barns er 4 klst. á dag.
Foreldrar geta skráð mismunandi dvalartíma fyrir hvern dag vikunnar.
Aukinn sveigjanleiki í vistun og möguleiki á að kaupa viðbótartíma einstaka daga.
Skráður dvalartími barns getur ekki hafist seinna en kl. 09:00.
Skrá þarf vistun sérstaklega eftir kl. 14:00 á föstudögum.
Breytingar verða gerðar á gjaldskrá.
Í gærkvöldi var haldinn kynningarfundur fyrir hagsmunaaðila sem var vel sóttur. Þar gafst tækifæri til að kynna sér tillögurnar og spyrja spurninga. Kynninguna má nálgast hér og skýrslu starfshópsins hér. Samtalið er mikilvægt þegar kerfisbreytingar eiga sér stað og áttu góðar umræður sér stað á fundinum. Foreldrar, forráðamenn og starfsfólk eru hvött til að hafa samband við Helgu Sigrúnu Þórsdóttur deildarstjóra fræðslu- og uppeldismála vegna spurninga eða ábendinga á netfangið helgasigrun@vestmannaeyjar.is eða fraedslurad@vestmannaeyjar.is.
Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra því saman sköpum við betri leikskóla til framtíðar.
