Fara í efni
01.03.2023 Fréttir

Röddin-upplestrarkeppni

15 nemendur í 7. bekk kepptu um að vera fulltrúar GRV á lokahátíð Raddarinnar-upplestrarkeppni.

Deildu

Röddin-upplestrarkeppni í 7. bekk hófst á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sl. með ræktunarhlutanum en það er mikilvægast hluti keppninnar. Þar er höfuðáhersla á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af. Í lok ræktunartímabils eru haldnar bekkjarkeppnir og valdir fulltrúar úr bekkjunum til að keppa í skólakeppninni.

Skólakeppni Raddarinnar-upplestrarkeppni var síðan haldin þriðjudaginn 28. febrúar í sal Tónlistarskólans. 15 nemendur kepptu um að vera fulltrúar GRV á lokahátíð Raddarinnar-upplestrarkeppni sem verður haldin að Laugalandi að Holtum í apríl.

Áður en fyrri umferð keppninnar hófst flutti Lovísa Ingibjörg Jarlsdóttir lagið Kung Fu Fighting á saxafón við gítarundirleik Jarls Sigurgeirssonar.

Í fyrri umferð lásu keppendur svipmyndir úr sögunni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur en í seinni umferð ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk. Þeir stóðu sig allir með stakri prýði og var hlutverk dómnefndar að vanda erfitt en hana skipuðu Drífa Þöll Arnardóttir, Helga Sigrún Þórsdóttir og Kári Bjarnason.

Í 1.-3. sæti eftir stafrófsröð voru Bergdís Björnsdóttir, Bjartey Ósk Smáradóttir og Rakel Rut Rúnarsdóttir. Þær stöllur verða þá fulltrúar GRV á lokahátíðinni. Fannar Ingi Gunnarsson var í 4. sæti og hleypur í skarðið ef forföll verða.