Alls sóttu fimm einstaklingar um starfið, ein kona og fjórir
karlar.
Leitað var ráðgjafar Hagvangs við úrvinnslu og mat umsókna. Að mati á umsóknum komu fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og mannauðsstjóri.
Ítarlegt mat átti sér stað á umsækjendum, m.a. starfsviðtöl, leitað var umsagna, hluti umsækjenda var beðinn um að kynna sig, framtíðarsýn hafnarinnar o.fl. Jafnframt var lagt fyrir hluta umsækjenda persónuleikamat. Stuðst var við matskema þar sem hæfnisþáttum var gefið ákveðið vægi og umsækjendur metnir út frá því.
Niðurstöður matsins voru þær að Dóra Björk Gunnarsdóttir var metin hæfust af umsækjendum. Geirlaug Jóhannsdóttir, eigandi og ráðgjafi hjá Hagvangi kynnti ferlið, matið og niðurstöðurnar fyrir fulltrúum framkvæmda- og hafnarráðs á fundi sem haldinn var í gær. Framkvæmda- og hafnarráð ákvað í framhaldi að ráða Dóru Björk í starf hafnarstjóra og byggði það á umræddi mati á umsækjendum.
Dóra Björk hefur lokið B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræði og leggur stund á meistaranám við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst auk þess að stunda nám við grunndeild rafiðna við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum.
Dóra Björk starfar sem stundakennari við Visku símenntunarmiðstöð og forfallakennslu við Grunnskóla Vestmannaeyja þar sem hún starfaði um árabil sem grunnskólakennari og fagstjóri. Dóra Björk var framkvæmdastjóri ÍBV 2013-2019 og formaður Þjóðhátíðanefndar.
Vestmannaeyjabær býður Dóru Björk velkomna til starfa.
