Nú er enn ein óveðurslægðin að skella á okkur Eyjamönnum. Seinni partinn í dag og í kvöld er í gildi rauð veðurviðvörun eins og rakið er í tilkynningu lögreglu. Ný lægð kemur strax í kjölfarið og í fyrramálið getur verið erfitt ástand, en þá verður í gildi appelsínugul viðvörun. Appelsínugul viðvörun kallar ekki á ákvarðanir um breytt skólahald og aðra þjónustu sveitarfélagsins í dag, en ef það þarf að grípa til einhverra ráðstafanna varðandi morgundaginn verður það gefið út kl. 7 í fyrramálið.
Mikilvægt er að fylgjast vel með tilkynningum er varða veðrið.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri
Eftirfarandi er tilkynning frá lögreglunni í Eyjum frá því fyrr í dag:
Rauð viðvörun frá Veðurstofu Íslands, suðaustan stormur eða rok 20-30 m/s í kvöld með talsverðri úrkomu.
Nú er enn ein lægðin á leiðinni til okkar og má búast við suðaustan stormi eða roki í dag og fram eftir kvöldi. Í nótt má svo búast við því að vindurinn snúist í suðvestan átt. Reiknað er með töluverðri úrkomu með lægðinni.
Við hvetjum íbúa til þess að huga að öllu lauslegu til þess að koma í veg fyrir möguleg foktjón. Einnig hvetjum við íbúa til þess að vera ekki á ferðinni að óþörfu.
Íbúar eru hvattir til þess að hreinsa vel frá niðurföllum í sínu nærumhverfi.
Við hvetjum foreldra til þess að fylgjast vel með tilkynningum í fyrramálið vegna skólahalds.
