Geðheilbrigði er hluti af almennu heilbrigði, en það fær oft litla umfjöllun, bæði á opinberum vettvangi og í samtölum fólks. Geðraskanir, sem eru raskanir á geðheilbrigði, eru algengar og hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Meðferð, hugmyndafræði og viðhorf til geðraskana tengjast menningu og aðstæðum hverju sinni. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að 22 -24% íbúa vestrænna landa þjáist af geðheilbrigðisvanda einhvern tíma á ævinni. Geðraskanir hafa víðtæk áhrif á allt samfélagið og ekki síst á aðstandendur sem oft hafa gleymst.
Góð geðheilsa einkennist af því að:
* hafa jákvæða sjálfsmynd
* vera virk(ur) og nota bjargráð sín
* taka sjálfstæðar ákvarðanir
* einangra sig ekki
* vera rauntengdur með getu til samhygðar
* geta tengst djúpum tilfinningaböndum
Eftirfarandi einkenni geta komið fram hjá þeim sem þjást af geðröskunum og hjá þeim sem upplifa erfiðleika:
* mikill kvíði, ótti og þjáningar
* líkamleg einkenni, t.d. breytingar á matarlyst og einkenni frá taugakerfi líkamans
* svefntruflanir
* truflanir á hegðun, samskiptum og tengslum
* ofskynjanir og ranghugmyndir
* óróleiki, einangrun og/eða ofsaköst
* sjálfsvígsatferli
* vonleysi
Mikilvægt er að hafa í huga að hægt er að minnka flest neikvæð einkenni geðraskana og meðferðir eru almennt árangursríkar.
Næstkomandi þriðjudag, þann 11. júlí 2006 kl. 20.00 verður Hjalti Jónsson starfandi sálfræðingur við geðsjúkrahúsið í Árósum og doktorsnemi við Árósarháskóla með opinn fyrirlestur um kvíða og þunglyndi í safnaðarheimili Landakirkju. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir helstu einkennum kvíða og þunglyndis ásamt mismunandi tegundum raskana. Fjallað verður um þau meðferðarúrræði sem sýnt hafa mestan árangur í meðferð þunglyndis og kvíðaraskana. Auk þess verða kynntar ýmsar sálfræðiaðferðir sem notaðar eru í kvíða og þunglyndismeðferð, en þessar aðferðir eru þess eðlis að flestir geta nýtt sér þær gegn almennum depurðar-, kvíða - og stress einkennum sem fylgja nútímasamfélagi.
Fyrirlesturinn er í boði Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja og félags-og fjölskyldusviðs Vestmannaeyja í samstarfi við Landakirkju og er öllum opinn.
Bæjarbúar eru hvattir til að mæta. Aðgangur ókeypis.
Hera Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri félags-og fjölskyldusviðs.