Langþráður draumur Eyjamanna um nýja ferju varð að veruleika þegar nýr Herjólfur, sá fjórði í röðinni, lagðist að bryggju í Friðarhöfn á laugardaginn var. Fjöldi manns var mættur til að fagna komu skipsins sem á eftir að stórbæta samgöngur í Landeyjahöfn. Nýi Herjólfur virkar minni en sá gamli, en svo er í raun ekki og munar litlu á lengd og breidd skipanna. Það sem mestu skiptir er að nýja ferjan hentar betur í Landeyjahöfn, ristir minna og lætur mun betur að stjórn en gamla ferjan.
Þetta er stórt skref í samgöngusögu Vestmannaeyja og það var líka að sjá og heyra á gestum við móttöku skipsins um helgina þar sem áætlað er að á þriðja þúsund manns hafi skoðað ferjuna. Öllum þeim sem komið hafa að þessu stóra og veigamikla verkefni eru þökkuð frábær störf.