Fara í efni
17.11.2006 Fréttir

Ný Norræn matargerð o.fl.

Síðastliðinn föstudag kynnti Sigríður Þormóðsdóttir frá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni (Nordic Innovation Centre, NICe) verkefnið Ný Norræn matargerð (New Nordic Food) á morgunverðarfundi í Reykjavík. Um er að ræða samstarfsverkefni á vegum
Deildu

Síðastliðinn föstudag kynnti Sigríður Þormóðsdóttir frá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni (Nordic Innovation Centre, NICe) verkefnið Ný Norræn matargerð (New Nordic Food) á morgunverðarfundi í Reykjavík. Um er að ræða samstarfsverkefni á vegum Norrænu Ráðherranefndarinnar, þar sem leitast er við að styðja nýsköpun á sviði matvæla, ferðaþjónusta og afþreyingaiðnaðar. Markmið verkefnisins er m.a. að stuðla að jákvæðri byggðaþróun í afskekktum byggðum, að efla svæðisbundna verðmætasköpun og að efla samkeppnishæfni norræna matvælaiðnaðarins á alþjóðamarkaði.

Ímynd norrænna matvæla er hollusta, ferskleiki og hreinleiki. Þetta endurspeglast í matargerð okkar, menningu og hefðum. Matvælaiðnaðurinn gegnir lykilhlutverki í atvinnulífi allra Norðurlandanna og löng hefð er fyrir öflugu norrænu rannsóknar- og þróunarsamstarfi, sem hefur skilað Norðurlöndum forystu á þessu sviði.

NICe leitar að nýsköpunarverkefnum á eftirfarandi sviðum:

  • nýjar vörur, þjónusta, ferli eða skipulag
  • nýjar hugmyndir fyrir dreifingu, sölu og markaðssetningu norræns matar
  • samstarf og tengslamynd un milli iðngreina

Verkefnin eiga t.d. að snúast um norræn hráefni, afurðir og hefðir, tilbúin matvæli og framleiðsluaðferðir, matargerð, verkkunnáttu og þjónustu. Dæmi um hugsanleg þemu eru m.a. gæðamerking og rekjanleiki vara, matartengd ferðaþjónusta, jákvæð áhrif matvæla á heilsu manna, menntun í matvælaiðnaði eða bein sala á staðbundnum afurðum og þjónustu (heimasala).

NICe býður aðilum í matvælaiðnaði, ferðaþjónustu og afþreyingaiðnaði, frumframleiðendum, dreifingar-, sölu- og markaðsaðilum, stofnunum, stjórnvöldum og öðrum að senda inn tillögur sínar um verkefni á þessu sviði.

Því miður er mjög stuttur tími til stefnu til að senda inn tillögur að verkefnum ("Expression of interest"). Þær þarf að senda til NICe í síðasta lagi 1. desember nk.

Allar nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsvæði NICe, www.nordicinnovation.net, nánar tiltekið á http://www.nordicinnovation.net/focus.cfm?id=1-4416-13. Starfsfólk Staðardagskrárskrifstofunnar er einnig reiðubúið að hjálpa til eftir föngum.

Í tengslum við þessa umræðu um staðbundna framleiðslu er ástæða til að benda á skemmtilega grein Bjarna Guðmundssonar á vefsvæði Skessuhorns, nánar tiltekið á

http://www.skessuhorn.is/default.asp?sid_id=21464&tid=2&fre_id=43435&meira=1&Tre_Rod=001|011|&qsr

.