Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra undirritaði í dag nýja friðlýsingu fyrir friðlandið Surtsey sem felur í sér umtalsverða stækkun friðlandsins. Nýja friðlýsingin nær ekki aðeins til Surtseyjar sjálfrar, sem er 1,4 ferkílómetrar, eins og fyrri friðlýsing, heldur allrar eldstöðvarinnar. Nýja friðlýsingin nær þess vegna líka til neðansjávargíganna Jólnis, Syrtlings og Surtlu og hafsvæðis umhverfis eyjuna, alls um 65,6 ferkílómetra svæðis. Stækkun friðlandsins tengist m.a. samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í desember um að tilnefna Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO.
Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja að þróun eyjarinnar verði eftir lögmálum náttúrunnar í samræmi við 1. gr. laga um náttúruvernd. Tilgangurinn er að tryggt verði að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndana verði með sem eðlilegustum hætti og truflun af völdum manna sem minnst. Friðlýsingin byggir meðal annars á því að öll eldstöðin hefur hátt vísinda- og náttúruverndargildi á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða.
Til þess að stuðla að nægjanlegri verndun Surtseyjar er óheimilt að fara í land í Surtsey eða kafa við eyna nema til rannsókna og verkefna þeim tengdum og þá aðeins með skriflegu leyfi Umhverfisstofnunar. Siglingar umhverfis eyjuna eru heimilar eins og verið hefur, svo og veiðar með handfærum og á línu. Bannað er að veiða með veiðarfærum sem dregin eru eftir botninum á rúmlega 46 ferkílómetra svæði innan friðlandsins. Notkun skotfæra er óheimil innan friðlandsins, bæði á landi og sjó.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu en Surtseyjarfélagið hefur það verkefni að samræma og leitast við að efla vísindarannsóknir innan svæðisins og Náttúrufræðistofnun Íslands stundar rannsóknir og annast reglubundna vöktun náttúrufars í friðlandinu í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina og Surtseyjarfélagið.
Friðlýsingin er gerð í samráði við sjávarútvegsráðherra og í samræmi við tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki Vestmannaeyjabæjar.