Velheppnaður dagur, góð aðsókn á viðburðina. Nýr sýningabás í Byggðasafni tengdur eldgosinu í Vestmannaeyjum, ljósmyndasýning Kötlugosið 1918.
Sl. laugardag hófst dagskráin með opnunartónleikum Skólalúðrasveitarinnar undir stjórn Hjálmars Guðnasonar í anddyri Safnahússins. Í anddyrinu hefur Héraðsskjalasafnið komið upp sýningu og er þema sýningarinnar 1974. Síðan hófst upplestur þriggja höfunda í lesstofu Bókasafnsins þeirra Kristínar Steinsdóttur, Úlafars Þormóðssonar og Árna Johnsens. Komust færri að en vildu.
Rakti síðan hver viðburður annan. Fjöldi manns lagði leið sína á Skansinn, þar sem sr. Þorvaldur Víðisson var með helgistund í Stafkirkjunni. Félagar úr Lúðrasveit Vestmannaeyja léku nokkur lög og þá tók við dagskrá Arnars Sigurmundssonar um atburði og mannvirki sem tengjast Skanssvæðinu.
Bæjarlistamaður Vestmannaeyja, Steinunn Einarsdóttir, opnaði sýningu sína í Gallerí Prýði.
Eftir kvöldmat hófst dagskrá í Byggðasafninu undir stjórn Andrésar Sigmundssonar, "Sögur og tónlist úr gosinu", Sæþór Vidó rifjaði upp "topp 10"gosársins. Því næst héldu menn niður í Júlíukró, þar sem Sigurgeir Jónsson var með sagnaþátt af Bjarnhéðni Elíassyni. Dagskrá Náttúrugripasafnsins tók þá við þar sem Ingvar Sigurðsson var með erindi og myndasýningu frá Suðurskautslandinu.
Salur gamla Áhaldahússins var næsti viðkomustaður bæjarbúa. Klukkustund fyrir miðnætti var opnuð sýning Ljósmyndasafns Vestmannaeyja á einstæðum ljósmyndum Kjartans Guðmundssonar af Kötlugosinu 1918, sýning á myndum sem aldrei hafa verið sýndar áður. Sýningin verður hengd upp í anddyri Safnahússins og mun standa næstu vikur. Samtímis hófu jazzgeggjarar Stolza og co leik. Þar voru á ferðinni Ólafur Stolzenwald kontrabassaleikari, Erik Qvick trommuleikari og Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar.
Á laugardeginum stóð einnig yfir þing SASS í Höllinni og mættu fulltrúar sveitarfélaganna niður í gamla sal Áhaldarhússins á tónleikana að aflokinni dagskrá þeirra, með Guðrúnu Erlingsdóttur, forseta bæjarstjórnar í broddi fylkingar.
Bæjarbúar sýndu í verki að þeir kunna vel að meta svona uppákomur og yfirleitt var mjög vel mætt á alla atburðina. Miðað við viðtökur og almenna ánægju neytenda er "Nótt safnanna" komin til að vera.
Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Vestm.