Að tillögu tekjustofnanefndar frá 17. mars 2005 hefur félagsmálaráðherra skipað nefnd til að endurskoða III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Enn fremur er gert ráð fyrir að nefndin geri tillögur um hugsanlegar breytingar á reglugerðum sem sjóðurinn starfar eftir.
Nefndinni er ætlað að meta kosti og galla núverandi jöfnunarkerfis og hugsanlega þörf fyrir endurskoðun á kerfinu í heild sinni eða einstökum þáttum þess. Sérstaklega skal horft til þess hvort breytingar á sveitarfélagaskipan, tekjustofnum og verkefnum sveitarfélaga í tengslum við átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins og önnur þróun hafi að einhverju leyti breytt forsendum fyrir núverandi kerfi þegar horft er til framtíðar. Í því sambandi skal nefndin meðal annars hafa hliðsjón af hugmyndum tekjustofnanefndar um áherslur við endurskoðun sjóðsins.
Gert er ráð fyrir að endurskoðunarnefnd skoði hvort nægilegt tillit sé tekið til sérstakra aðstæðna sveitarfélaga í núverandi jöfnunarkerfi og geri tillögur um breytingar ef þörf er á. Einnig skal nefndin kanna hvort núverandi kerfi tryggi réttláta jöfnun meðal sveitarfélaga. Í því felst það sjónarmið að sveitarfélög fái ekki meira úr sjóðnum en þau þurfa vegna tekju- og útgjaldaþátta en njóti engu að síður ávinnings af hagkvæmni í rekstri. Samkvæmt tillögum tekjustofnanefndar verður veitt árlegt 700 m.kr. aukaframlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2006 til 2008. Þessum fjármunum er ætlað að bæta rekstur og fjárhagslega stöðu sveitarfélaga sem standa höllum fæti vegna erfiðra aðstæðna, m.a. vegna byggðaröskunar og lágra tekna. Ljóst er að þetta sérstaka framlag mun nýtast vel þeim sveitarfélögum sem það fá greitt.
Nefndina skipa:
- Herdís Sæmundardóttir, formaður
- Arnbjörg Sveinsdóttir, alþingismaður
- Birkir Jón Jónsson, alþingismaður
- Flosi Eiríksson, bæjarstjórnarfulltrúi í Kópavogsbæ
- Gunnar Svavarsson, bæjarstjórnarfulltrúi í Hafnarfjarðarkaupstað
- Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ
- Helga Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Hörgárbyggð
Gert er ráð fyrir því að með nefndinni starfi sérfræðingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, viðskipta- og iðnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti.
Nefndinni er ætlað að ljúka störfum fyrir 1. apríl 2006. Tengt efni: Endurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2001-2002
Af vef félmrn. 16.09.05
Fræðslu og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.