Niðurstöður íbúaþings voru kynntar á almennum fundi í Höllinni í gærkveldi.
Starfsmenn Alta, þeir Árni Geirsson og Haukur Björnsson, héldu kynningarfund á þriðjudagskvöld þar sem farið var yfir helstu niðurstöður íbúaþingsins sem haldið var í Vestmannaeyjum 18. febrúar sl. Þingið var haldið undir slagorðinu Róum í takt og tóku tæplega 150 manns þátt í því. Þar af voru 61% konur og 44% þátttakenda var á aldrinum 31 til 50 ára. Eins vakti það athygli forsvarsmanna fyrirtækisins að 60% þeirra sem mættu höfðu búið í Eyjum alla sína ævi. Í fréttatilkynningu frá Alta kemur fram að það sé ljóst að Eyjamenn hafi áhyggjur af fækkun íbúa og þeim samdrætti sem verið hefur í sjávarútvegi. Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar sem ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Margar ábendingar komu fram um það að efla þurfi samstöðu og innbyrðis hvatningu.
Ljóst er að Vestmannaeyjar hafa fjölmargt sem aðrir staðir geta ekki boðið upp á, jafnt íbúum og gestum. Þó er atvinnulíf ennþá fremur einhæft og það kom skýrt fram hjá þátttakendum að auka þurfi fjölbreytni. Jafnframt þurfi að styrkja menntun og hefja kennslu á fleiri skólastigum í Eyjum. Þá voru samgöngumál ofarlega á baugi enda hafa göng og höfn í Bakkafjöru verið mjög til umræðu undanfarið. Meðal þátttakenda komu fram skiptar skoðanir um það hvort bæta eigi núverandi ferjuþjónustu til Þorlákshafnar eða hvort leggja beri áherslu á hinn nýja möguleika á ferjuhöfn í Bakkafjöru.Greinilegt var af umræðunni að Eyjamenn meta átthagana mikils, bæði ungir sem aldnir en leitað var álits barna og unglinga með verkefnavinnu í skólum.
Ágætis mæting var á kynningarfundinn á þriðjudaginn og kom fram í máli Bergs Elíasar Ágústssonar bæjarstjóra að unnið yrði áfram með hugmyndir sem komu fram á íbúaþinginu. Margar athyglisverðar tillögur og ábendingar komu fram. Til að mynda að fiskur sem við kaupum hér er unninn í landbúnaðarhéraðinu Selfossi. Fannst fólki það nokkuð öfugsnúið.
Eins þyrfti hér að auka sjálfstraust, auka samstöðu og draga úr öfund. Ein hugmynd var að hér yrði búin til sérstaða í skiltum, til dæmis götumerkingum og lýsingu.
Árni sagði að klárar vísbendingar væru að samfélagið væri að ganga í gegnum grundvallarbreytingu og ljóst að það þyrfti að fara að átta sig á því. Hér væri staðan sú að í stað þess að viðurkenna breytingarnar og takast á við þær sé beðið eftir reddingu.
Árni ræddi um samgöngumál. Sagði að skiptar skoðanir hafi verið um framtíðarskipan þeirra mála og margir nefnt að nýr Herjólfur væri það eina rétta. Sagði hann að þau hafi spurt sig, hverju breytir það? Tíminn sem færi í ferðalag frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur myndi styttast um 20%. Bað hann fólk um að spyrja sig að því hvert viðhorfið væri ef það væri verið að leggja niður siglingu í Bakkafjöru og hefja siglingar til Þorlákshafnar í staðinn.
Birt með leyfi eyjafrétta.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.