Hallur Karl Hinriksson myndlistarmaður heldur sýningu á nýjum verkum í Vélasal Listaskólans við Vesturveg nú um helgina. Hallur Karl, sem er tuttugu og fimm ára gamall selfyssingur, nam myndlist á Bretanskaganum í Frakklandi og lauk þar þriggja ára námi fyrir rúmu ári síðan. Myndirnar sem hann sýnir um helgina eru afrakstur þriggja vikna dvalar í Vestmannaeyjum og er myndefnið landslag og haustlitir í Eyjum. Um er að ræða olíu á striga.
Þetta er önnur sýning Halls á árinu en hann sýndi síðast verk sín í Óðinshúsi á Eyrarbakka í septembermánuði. Fékk sú sýning góðar viðtökur og gagnrýni.
Sýningin verður opnuð föstudaginn 20. október klukkan 18.00. Sýningin verður svo opin aðeins nú um helgina, frá 14.00 til 18.00 laugardag og sunnudag.
Allir hjartanlega velkomnir!