Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja hefur boðað til blaðamannafundar á morgun, um borð í fiskiskipinu Vestmannaey VE í Friðarhöfn. Á fundinum verða lagðar fram hugmyndir Vestmannaeyinga að mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar til handa Vestmannaeyjum til að mæta þeim mikla niðurskurði í kvótaúthlutun í þorskveiðum. Fundurinn hefst klukkan 14.00 en fréttatilkynningu Vestmannaeyjabæjar vegna fundarins má lesa hér að neðan.
Af 193 þúsund tonna þorskafla á yfirstandandi fiskveiðiári 2006/2007 er hlutur fiskiskipa frá Vestmanaeyjum 11.995 tonn og hefur kvótinn aukist um rúm 1000 tonn á núverandi fiskveiðiári. Af 130 þúsund tonna úthlutun 2007/2008 verður hlutur Vestmannaeyja rétt liðlega 8 þúsund tonn og munar hvorki meira né minna en rétt tæpum 4 þúsund tonnum frá því sem nú er eða 33%.
Að beiðni Vestmannaeyjabæjar unnu Vífill Karlsson og Guðný Anna Vilhelmsdóttir hjá SSV Þróun og ráðgjöf, greinargerð um staðbundin efnahagsleg áhrif 30% kvótaskerðingar á Vestmannaeyjar
Helstu niðurstöður þessarar greinagerðar voru að staðbundin efnahagsleg áhrif 30% þorskkvótaskerðingar á Vestmannaeyjar næmu alls um 3.6 milljörðum króna á fiskveiðiárinu 2007/2008. Sérfræðingar í hafrannsóknum á Íslandi hafa gefið í skyn að skerðingin muni að öllum líkindum ná til næstu þriggja ára. Má því álykta að áhrifin verða vert undir 10 milljörðum á þessum tíma í Vestmannaeyjum. Í greinargerðinni kom einnig fram að af 79 sveitarfélögum í landinu öllu, eru Vestmanneyjar kvótaríkasta sveitarfélagið þegar horft er til heildarkvóta í þorskígildum.
Höggið fyrir atvinulífið og samfélagið allt vegna niðurskurðar á þorskkvóta er því mikið. Eyjamenn eru hinsvegar þekktir fyrir að líta á mótlæti sem verkefni en ekki vandamál og munu líta á þessar þrengingar sem hvatningu til að gera enn betur hvað varðar þá vaxtarbrodda sem fyrir eru. Því hefur Vestmannaeyjabær nú kallað eftir mótvægisaðgerðum ríkisstjórnar og lýst sig reiðubúna til að draga vagninn hvað tillögur og framkvæmd þeirra varðar.
Á blaðamannafundi þeim sem boðað hefur verið til á morgun verða lagðar fram tillögur sem leiðarvísir að árangri í mótvægisaðgerðum. Það er ósk Vestmannaeyinga að hratt og örugglega verði unnið að framkvæmd þeirra enda mikilvægt að ekki myndist millibilsástand þar sem fullkomin óvissa ríkir.
Fundurinn sem hefst kl. 14.00 á morgun föstudag verður haldinn um borð í Vestmannaey VE sem liggur við botn Friðarhafnar, en Vestmannaey er eitt af hinum nýju og glæsilegu skipum í flota Eyjamanna.