Fara í efni
27.03.2006 Fréttir

MÓÐURMÁL ERU MÁTTUR

Ráðstefna um nám og kennslu, stefnu og stuðnig við móðurmál tvítyngdra. Guðrún Helga Bjarnadóttir leikskólafulltrúi Vestmannaeyjabæj
Deildu

Ráðstefna um nám og kennslu, stefnu og stuðnig við móðurmál tvítyngdra. Guðrún Helga Bjarnadóttir leikskólafulltrúi Vestmannaeyjabæjar sat ráðstefnuna í Háskóla Íslands föstudaginn 17. mars 2006 kl.13:00-17:00 ( sjá greinagerð hér fyrir neðan)

Undirrituð sat ráðstefnuna MÓÐURMÁL ERU MÁTTUR. Á ráðstefnunni var fjallað um álitamál í opinberri stefnumótun, drög að aðalnámskrám í íslensku sem öðru tungumáli og hvað þarf til þess að tvítyngd börn eignist sterk móðurmál. Á ráðstefnunni var leitað svara við ýmsum áleitnum spurningum sem komið hafa upp í því fjölbreytta menningarumhverfi sem nú ríkir á Íslandi. Um 200 manns sóttu ráðstefnuna, þar á meðal fjöldi foreldra tvítyngdra barna, fræðimenn og fólk innan menntakerfisins á öllum skólastigum.

Ráðstefnan hófst með því að Skólakór Kársness undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur söng nokkur lög. Sabine Leskopf og Berta Faber settu ráðstefnuna og frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari ráðstefnunnar flutti ávarp. Í sínu ávarpi sagði hún m.a. að ?móðurmál er lykill að öðrum málum."

Næstur tók til máls aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Steingrímur Sigurgeirsson og sagði m.a. í ávarpi sínu: Í tillögu að nýrri aðalnámskrá í íslensku sem öðru tungumáli er nú í fyrsta sinn fjallað um móttöku nemenda með annað móðurmál í grunn- og framhaldsskóla og er gerð sú krafa að skólar geri móttökuáætlun í samræmi við viðmiðanir sem settar eru í námskrá. Einnig er í nýrri aðalnámskrá ákveðnar fjallað um gildi móðurmáls og mikilvægi þess að foreldrar séu hvattir til að rækta og varðveita eigið móðurmál og tengsl við upprunamenningu, samhliða íslenskunáminu. Ekki eru sett ákvæði um sérstaka móðurmálskennslu en hvatt er til slíkrar kennslu og leitað leiða til að styrkja móðurmálsþáttinn, m.a. með fjarkennslu og mati á móðurmálskunnáttu sem hluta af námi á grunn- og framhaldsskólastigi."

Búið er að breyta orðalagi og skilgreiningu þannig að talað er um íslensku sem annað tungumál, ekki um nýbúa eða nýbúafræðslu. Í þessum nýju drögum er mikil áhersla lögð á kennslu í fyrsta móðurmáli viðkomandi barna, í samráði við forráðamenn.

Dr. Birna Arnbjörnsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og móðir tvítyngdra barna flutti erindi sem hún nefndi Móðurmál er undirstaðan. Hún fór í gegnum nokkur atriði í drögum um aðalnámsskrá grunnskóla og benti á að ?meiri áhersla er lögð á að rækta móðurmálið." (Bls 5 + 6 + 7) Önnur mikilvæg atriði sem gerð var grein fyrir voru m.a. að:

  • Stuðla að viðhaldi móðurmáls.
  • Traust undirstaða í móðurmáli er forsenda færni í seinni málum.
  • Börn virðast hafa sérstakan hæfileika til máltöku fram á unglingsárin
  • Ef börn skipta um málumhverfi á viðkvæmu máltökuskeiði er farsælast að þróun móðurmáls haldi áfram og að seinna málinu sé bætt við.
  • Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að stuðla þarf að tungumáli tvö sem bætt er við og til verður virkt tvítyngi, en ekki málskipti.
  • Tvítyngi hefur jákvæð áhrif á vitsmunaþroska þegar báðum tungumálunum er viðhaldið.
  • Börn sem alast upp við tvö tungumál samtímis eða læra nýtt tungumál á grunnskólaaldri og viðhalda jafnframt móðurmálinu, lestri, ritun, tali o.s.frv., eru vel í stakk búin til að takast á við nám á hvoru máli um sig.

Hvernig er þetta svo framkvæmanlegt? Jú, skv. nýrri aðalnámskrá skal ?hver skóli móta sér áætlun um innritun og móttöku tvítyngdra barna og fjölmenningarlega kennslu" (bls.8)

Öll þessi vinna miðast við að heimili og skóli vinni saman. Hvað geta foreldrar gert? Hvað geta skólar gert?

Toshiki Toma, f.h. Móðurmáls - félags um móðurmálskennslu flutti stutt erindi sem hann kallaði ?Þegar börnin mín sögðu orð á japönsku" Thosiki rakti eigin sögu, en hann á tvö börn með fyrrum konu sinni sem er íslensk. Hann lagði mikla áherslu á að börnin sín lærðu japönsku, svo þau gætu átt samskipti við föðurfólk sitt. Honum fannst vinnan sem hann lagði í að tala við börnin sín japönsku ætla aldrei að skila sér, þangað til einn daginn að barnið sagði ?fjólublár" á japönsku. Toshiki stökk inn, náði í upptökuvél og lét barnið endurtaka orðið, sem hann sendi síðan foreldrum sínum til Japans. Í dag eru börnin hans tvö orðnir unglingar og tala jöfnum höndum íslensku og japönsku.

Í þeim heimi sem við lifum í dag, þar sem samskipti við aðrar þjóðir, jafnvel fjarlægar, eru nánast daglegt brauð veitir okkur ekki af einstaklingum sem eru tvítyngd, eða eins og hann sagði ?Móðurmál er eilífð fjárfesting fyrir framtíðina. Tvítyngd börn eru framtíðin".

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Elín Þöll Þórðardóttir talmeinafræðingur, dósent við McGill University í Kanada. Fyrirlestur hennar hét Tvítyngi er hið besta mál þegar málin styrkja hvort annað.

Í erindi hennar kom fram að ríkjandi stefnur í málum tvítyngdra barna hafi löngum einkennst af nokkrum ótta við tvítyngi. Margar kennsluaðferðir ganga út frá því að það sé erfiðara að læra tvö mál en eitt, og að sérstakra ráðstafana sé þörf til þess að það takist. Þannig er oftast leitast við að hjálpa tvítyngdum börnum með því að stuðla að skýrum aðskilnaði milli málanna, eða með því að stuðla að því að barnið noti eingöngu annað málið. Í mörgum tilfellum leiðir slík stefna til þess að börnum fer aftur í móðurmáli sínu eða þau hætta að tala það. Rannsóknir á máltöku tvítyngdra barna benda hins vegar til þess að tvítyngi sé á færi allra barna sé þeim búið gott umhverfi til þess.

Hún lagði áherslu á það að til þess að læra íslensku, er nauðsynlegt að kunna vel sitt móðurmál - hafa góðan grunn að byggja á. Ef viðkomandi hefur góðan málhæfileika er auðvelt að yfirfæra á önnur tungumál.

Tvítyngd börn þurfa öðruvísi þjónustu/kennslu en önnur börn. Kennslan getur tekið lengri tíma, en þau eru ekkert öðruvísi börn og ná hinum. Ef þau ráða vel við eitt mál, geta þau auðveldlega fært það yfir á annað.

Tengsl málþroska og aldurs eru önnur fyrir tvítyngd börn => það þarf meiri sveigjanleika í kennslu, ekki stífar bekkjadeildir, heldur einstaklingsmiðað nám.

Hennar eigin börn hófu nám í svokallaðri móttökudeild fyrir útlendinga í Kanada, þar sem hún býr, en eftir nokkrar vikur sá hún fram á að þau myndu læra seint og illa frönskuna, sem þau þó áttu að læra. Þau kynntust og umgengust eingöngu önnur börn af erlendu bergi. Töluðu íslensku sín á milli og höfðu ekki mikil samskipti við aðra. Elín tók sín börn úr þessum skóla og flutti í annan með aðrar áherslur og gekk það mun betur.

Þróunarstarf með tvítyngdum börnum í leik-, grunn-, og framhaldsskólum - sigrar, ósigrar og það sem betur má fara.

Jón Ingi Hannesson framhaldsskólakennari í ensku í MH hóf máls og gerði grein fyrir ferli nema í svokölluðu IB námi, sem er alþjóðleg tveggja ára námsbraut sem er undirbúningur fyrir háskólanám. Hægt er að hefja IB nám eftir að hafa lokið einu ári á framhaldsskólastigi. Þetta nám fer fram á ensku og hentar mörgum en ekki öllum. Börnin verða að hafa mjög gott vald á ensku til að geta stundað þetta nám. Í MH er auk þess boðið upp á hliðarbraut, þar sem móðurmál viðkomandi nemenda er í boði. Þar sem oft reynist erfitt að sinna þessu, byggist þetta að mestu leyti á sjálfsnámi.

Lára Jóna Þorsteinsdóttir, grunnskólakennari í Hjallaskóla lýsti þróun nýbúadeildar í skólanum. Vísir að henni var kominn 1999, en hún var stofnuð formlega 2001. Þessi nýbúadeild er fyrir öll útlend börn eða börn með íslensku sem annað móðurmál í Kópavogi.

Litið er á þessa nýbúadeild sem 2ja ára skólaúrræði, eða lengur ef þarf. Einstaklingsnámskrá er fyrir hvert og eitt barn. Aðaláherslan er lögð á að tjá sig á eigin tungumáli, viðhalda og þróa eigið tungumál og að menning og arfur þeirra gleymist ekki. Síðan er reynt að yfirfæra þetta yfir á íslensku.

Niðurstöður þessarar vinnu eru þó þær að litlar framfarir eru í íslenskunni. Börnin eru einangruð. Þau koma úr ýmsum hverfum og þekkja ekki börnin í nágrenninu. Miklar efasemdir voru meðal ráðstefnugesta um þessa útfærslu. Börnin virðast einangrast félagslega og ekki ná þeim tökum á íslensku sem lagt er upp með.

Fríða Bjarney Jónsdóttir, leikskólaráðgjafi í Lækjaborg hefur unnið að þróunarverkefni sem nefnist Lækjaborg - fjölmenningarlegur leikskóli. Verkefnið stóð yfir árin 2001-2004.

Þar var lögð rík áhersla á fyrstu kynni við börn og foreldra. M.a. var skráð hvaða mál væri talað heima fyrir, hvernig fáni landsins liti út, annað hvort fengin mynd eða lítill fáni. Foreldrar voru beðnir um að útbúa orðalista á móðurmáli barnsins yfir algeng orð, bæði sem barnið sagði og einnig orð sem það skildi. Ýmsum bakgrunnsupplýsingum um foreldra og heimkynni þeirra var aflað, t.d. sett upp mynd af álfunni og landið afmarkað.

Með því að setja sig vel inn í mál foreldranna og sýna þeim og menningu þeirra áhuga voru traust og örugg tengsl mynduð við þau. Síðan var lögð áhersla á að viðhalda þeim áfram t.d. þegar barnið fluttist milli deilda.

Til að auðvelda barninu að skilja og átta sig á nýju tungumáli og aðstæðum var mikið lagt upp úr að setja upp myndræna dagskrá. Þannig lærðu þau hvað kæmi næst, og þurftu ekki að bíða óörugg þar til þau væru leidd/teymd áfram. Einnig gekk betur að yfirfæra íslensk orð á athafnirnar. Börnin urðu mun öruggari við að fá myndrænt skipulag.

Eitt atriðið við að bera virðingu fyrir menningu annarra var að börnin og foreldrarnir voru fengin til að kenna hinum söngva, stök orð eða setningar á viðkomandi móðurmáli. Dæmi um það eru t.d. kveðjur, Góðan dag, Góða nótt, Sæll og Bless, afmæliskveðjur ofl. Einnig voru mismunadi tölustafir og stafróf gert sýnilegt. Þjóðsögur og barnabækur voru þýddar yfir á íslensku og lesnar fyrir börnin og svo mætti lengi telja.

  • Markmið með þessu verkefni var m.a. að leggja áherslur á:
  • Tilfinningalegar þarfir barnanna
  • Myndir og tákn
  • Virðingu fyrir móðurmálinu
  • Vinna alltaf með móðurmál barnanna

Eftir þessa fyrirlestra voru 5 málstofur í boði.

Málstofa 1. Álitamál í opinberri stefnumótun

Fyrstur tók til máls Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri Reykjanesbæjar, sem fjallaði um stefnumótun Reykjanesbæjar fyrir bæjarbúa af erlendum uppruna og þá sérstaklega í tengslum við móðurmál þeirra.

Seinni ræðumaður var Ingibjörg Hafstað, kennslustjóri íslenskukennslu hjá Alþjóðahúsi Þörfin fyrir sérstaka móðurmálsnámskrá. Fjallaði hún um rökin fyrir því að gerð verði opinber aðalnámskrá í móðurmálskennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku.

Eftir innlegg þeirra spunnust umræður um álitamál í opinberri stefnumótun og drög að námskrám í íslensku sem öðru tungumáli,

Málstofa 2. Menntamál kennara

Hanna Ragnarsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands fjallaði um fjölmenningu í námi við KHÍ og í nokkrum háskólum erlendis og stöðu nemenda af erlendum uppruna við KHÍ.

Eftir innlegg Hönnu voru umræður um menntamál kennara

Málstofa 3. Er tvítyngisnám raunhæfur valkostur?

Hulda Karen Daníelsdóttir, kennsluráðgjafi í nýbúafræðslu sagði frá samstarfsverkefninu Bækur og móðurmál

Vinnum með móðurmálin. Elsa Ísfold Arnórsdóttir grunnskólakennari fjallaði um nokkur úrræði sem kennarar geta notað til að styðja við móðurmál nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál.

Tungumálaverið í Laugalækjarskóla. Brynhildur Anna Ragnarsdóttir deildarstjóri kynnti fjarnámsmöguleika tungumálaversins í og á móðurmálum nemenda sem læra íslensku, sem annað tungumál.

Eftir innlegg fyrirlesara voru umræður um tvítyngisnám

Málstofa 4. Upplýsingagjöf á móðurmálum, túlkun og menningarlæsi

Friðbjörg Ingimarsdóttir, kennsluráðgjafi í nýbúafræðslu fjallaði um upplýsingagjöf á milli skóla og erlendra nemenda og foreldra þeirra. Nokkrar leiðir og dæmi voru kynnt. Sitt erindi nefndi hún: Upplýsingagjöf - brú á milli móðurmála og menningarheima

Sabine Leskopf, verkefnisstjóri túlkaþjónustu Alþjóðahúss Túlkun og menningarlæsi ... Aha! Fjallaði hún um hlutverk túlka, menningarlæsi og reynslu af vettvangi.

Að loknum erindum voru umræður um upplýsingagjöf á móðurmálum, túlkun og menningarlæsi

Málstofa 5. Málumhverfi tvítyngdra barna. Hvað þarf til þess að þau eignist sterk móðurmál?

Máltaka tvítyngdra barna. Svandís Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra fjallaði um hvaða forsendur þurfa að vera til staðar svo máltaka barnsins á báðum málum verði góð og það eignist sterk móðurmál

Umræður um málumhverfi tvítyngdra barna og hvað þarf til þess að þau eignist sterk móðurmál

Verið er að vinna úr niðurstöðum málstofanna og liggur sú samantekt fyrir síðar.

Að málstofum loknum tók María Kristín Gylfadóttir, formaður Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra til máls. Hún var með stutta samantekt yfir daginn en auk þess þakkaði hún fyrirlesurum fyrir þeirra innlegg. Einnig sagði hún að á þessum degi hefði hún lært margt nýtt, en auk þess er hún aðeins meira kvíðin en áður. Felst það aðallega í þeirri spurningu sem vaknaði í kjölfarið: Hvernig erum við að standa okkur í íslenskum skólum?

Lokaorðin voru: Tvítyngd börn eru ekki vesen eða sérkennslubörn, heldur dýrmætur fjársjóður í skólum.

Guðrún Helga Bjarnadóttir leikskólafulltrúi.

Aðstandendur ráðstefnunnar voru: Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, menntamálaráðuneytið, Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, Alþjóðahús, Fjölmenningarsetur, Móðurmál - félag um móðurmálskennslu tvítyngdra barna, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Heimili og skóli - landssamtök foreldra og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.

Ráðstefnan var einnig styrkt fjárhagslega af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Ísbrú - félagi fólks sem starfar að fræðslumálum útlendinga/tvítyngdra, Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og menntamálaráðuneytinu.

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.