Sérstök undirbúningsnefnd á vegum SASS hefur verið að vinna að drögum að sambærilegum samningi fyrir Suðurland. 28. október 2005, var í Hvalfirði undirritaður samningur um samstarf menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis við 17 sveitarfélög á Vesturlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undirritaði samninginn f.h. ríkisins, en Helga Halldórsdóttir formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi undirritaði samninginn fyrir hönd sveitarfélaganna. Er þetta í fyrsta sinn sem gengið er til slíks samstarfs við Vesturland, en áður hefur verið gengið til samstarfs við Austurland með sambærilegum hætti.
Tilgangur menningarsamningsins er að efla menningarstarf á Vesturlandi og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg. Jafnframt eru áhrif sveitarfélaga á forgangsröðun verkefna aukin. Menningarráð Vesturlands verður samstarfsvettvangur sveitarfélaganna og hefur meðal annars það hlutverk að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, úthluta fjármagni til menningarverkefna og verkefna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu á Vesturlandi jafnframt því að annast framkvæmd samningsins. Sveitarfélög á fjórum samstarfssvæðum, Borgarfjarðarsýsla sunnan Skarðsheiðar, Borgarfjarðarsýsla norðan Skarðsheiðar og Mýrasýsla, Snæfellsnes og Dalir, hafa það hlutverk að samræma aðgerðir á sviði menningarmála á Vesturlandi, skv. sérstökum samstarfssamningi þar um.
Framlög ríkisins til samningsins verða 25 m.kr. á árinu 2006, 26 m.kr. árið 2007 og 27 m.kr. árið 2008 en sveitarfélögin leggja jafnframt fram fé til sameiginlegra verkefna hvort heldur er með framlögum frá einkaaðilum eða með eigin framlögum. Skal við það miðað að árið 2006 nemi framlag sveitarfélaganna a.m.k. 10% af þeirri heildarfjárhæð sem veitt er til verkefnastyrkja, 17,5% árið 2007 og 25% árið 2008. Þá skulu sveitarfélögin greiða að lágmarki þriðjung kostnaðar vegna starfsemi Menningarráðsins árið 2007 og helming kostnaðar árið 2008. Gildistími samningsins er til ársloka 2008.
Samninginn er að finna á vef menntamálaráðuneytis, menntamalaraduneyti.is, vef samgönguráðuneytis, samgonguraduneyti.is og á vef Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, ssv.is
Af vef mrn.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.