Leikfélag Vestmannaeyja hefur í haust æft leikritið Móglí. Leikstjóri er Jón Stefán Kristjánsson. Hann hefur mikla reynslu af barnaleikritum, bæði sem leikstjóri og leikari. Hann hefur meðal annars leikið í Skilaboðaskjóðunni og Latabæ.
Leikritið fjallar um drenginn Móglí sem er alinn upp hjá úlfum, og þarf að takast á við lífið í frumskóginum. Fyrst hét þessi saga Dýraheimur en í útgáfu Disney, heitir það Skógarlíf, en í uppfærslu Leikfélags Vestmannaeyja er það nefnt eftir aðalsögupersónunni, Móglí.
Þetta er verk númer 150 hjá leikfélagi Vestmannaeyja, en Leikfélagið verður 100 ára árið 2010.
Mjög öflugt starf er hjá leikfélaginu og sett eru upp verk bæði að hausti og vori, á haustin er sett upp leikrit fyrir unga fólkið en á vorin er sett upp verk sem er hugsað fyrir þá fullorðnu. Móglí er verk fyrir alla aldurshópa og gott fjölskylduverk.
Aldur leikara er á frá 9 til 22 ára, af 17 leikurum eru 13 ennþá í grunnskóla.
Yngsti leikarinn er Berglind Sigmarsdóttir, hún leikur stúlkuna Sjanti. Berglind sagði að henni þætti gaman að leika í leikritinu og það væri allt gaman við það að vera í Leikfélaginu, og hún vildi starfa áfram í leikhúsinu.
Æfingar hafa staðið yfir í 6 vikur og er æft í fjóra tíma á dag 6 daga vikunnar, krakkarnir hafa lagt mikið á sig og reynt að vinna á móti reynsluleysi sínu með mikilli elju og áhuga. Nokkrir af elstu leikurunum hafa leiki áður í nokkrum uppfærslum Leikfélagsins.
Námskeið var haldið þar sem krakkarnir þurftu bæði að fara í söngprufu og prufu á upplestri ( fyrir framan alla hina) , eftir námskeiðið var skipað í hlutverk. Tuttugu krakkar sóttu um að komast á námskeiðið en fjörutíu krakkar mættu, svo það má segja að mikill áhugsi sé hjá ungu fólki hér í Vestmannaeyjum að taka þátt í leiklistarstarfi.
Krakkarnir bjuggu sjálf til grímurnar sínar sem þau eru með í Móglí. Æfingatímabil er um 6 vikur. Mikil vinna lögð í sviðsmynd, saumakonur eru Katrín Sjöfn Sigurbjörnsdóttir og Lilja Þorsteinsdóttir. Söngþjálfari er Helga Jónsdóttir.
Formaður stjórnar Leikfélags Vestmannaeyja er Ingveldur Theodórsdóttir.
Frumsýning verður laugardaginn 28.október kl 15,00.