Fara í efni
21.02.2006 Fréttir

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 17. -18. febrúar 2006.

Árlegur fundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn með málþingi og fundi á Hótel Sögu í Reykjavík dagana 17. og 18. febrúar sl.
Deildu

Árlegur fundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn með málþingi og fundi á Hótel Sögu í Reykjavík dagana 17. og 18. febrúar sl.

Yfirskrift málþingsins sem haldið var á föstudaginn og var opið öllum var Jafnrétti fyrir alla - spornum gegn mismunun - stuðlum að þátttöku.

Rauður þráður málþingsins var sú nálgun Reykjavíkurborgar að útvíkka og dýpka jafnréttisumræðuna þannig að hún nái ekki eingöngu til kynjamismunar eins og kveðið er á um í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna heldur verði einnig litið til hvers kyns misréttis gagnvart minnihlutahópum, s.s. aldurstengdrar mismununar, mismununar vegna uppruna, þjóðernis, kynhneigðar, fötlunar og fleiri atriða sem valda ójöfnum valdahlutföllum í nútímasamfélagi.

Þótt skiptar skoðanir væru um málið voru allir sammála um að kynjavíddin mætti aldrei gleymast þar sem ýmislegt bendir til að kynjamisréttið spili inn í aðrar tegundir mismununar. Þannig bendir ýmislegt til þess að erlendar konur hafi ekki aðeins lægri tekjur en karlar heldur einnig lægri tekjur en íslenskar konur. Þá var einnig lögð áhersla á að ekki megi gleyma samstöðunni. Ef litið er á jafnréttisbaráttu kynjanna í sögulegu ljósi kemur í ljós að kvennabaráttan hefur einnig skilað auknum réttindum í þágu annarra, m.a. kom upphaf kvennabaráttunnar í Bandaríkjunum til vegna baráttu kvenna þar gegn þrælahaldi. Málinu má heldur ekki stilla þannig upp að aukin réttindi eins hóps þýði sjálfkrafa skerðingu á réttindum annarra.

Á laugardaginum var síðan eiginlegur fundur jafnréttisnefndanna og fulltrúa þeirra þar sem m.a. var farið yfir gerð jafnréttisáætlana, þjónustu jafnréttisstofu og nefndirnar kynntu verkefni sín. Þar sem nú styttist í sveitarstjórnarkosningar var talin ástæða til að ítreka ályktun frá fyrra ári og samhljóða ályktun fundarins hljómar þannig:

Landsfundur jafnréttisnefnda, haldinn í Reykjavík 17.-18. febrúar 2006 ályktar:

Landsfundur jafnréttisnefnda ítrekar mikilvægi þess að konur og karlar komi jafnt að stefnumótun og stjórnun sveitarfélaganna og hvetur stjórnmálaflokka og sveitarstjórnir til að huga sérstaklega að jafnvægi kynjanna við skipun fulltrúa á framboðslista og í ráð og nefndir.

Það sem snýr að okkar sveitarfélagi er fyrst og fremst að fullvinna jafnréttisáætlun sem á að vera tilbúin sem fyrst eftir kosningar og er mikilvægt að sem flestir komi að því verki og láti skoðanir sínar í ljós.

Fyrir áhugasama eru nánari upplýsingar og glærur frá fundinum á:

http://. reykjavik is/default.asp?cat_id=1924

Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi