Fara í efni
25.10.2022 Fréttir

Kveikjum neistann - vel heppnað málþing

Einstaklega vel heppnað málþing í tengslum við þróunar- og rannsóknarverkefnið Kveikjum neistann var haldið föstudaginn 21. október sl. í Sagnheimum

Deildu

Málþing í tengslum við þróunar- og rannsóknarverkefnið Kveikjum neistann var haldið í Sagnheimum síðastliðinn föstudag. Tilgangurinn með því var m.a. að meta árangurinn af verkefninu eftir fyrsta árið og ræða þær áskoranir sem liggja fyrir.

Áður en málþingið hófst sungu nemendur leikskólans Sóla nokkur lög fyrir gesti og Helga Björk Ólafsdóttir, skólastýra Sóla, opnaði nemendasýninguna Von á bókasafninu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, opnaði málþingið formlega og í framhaldi tóku við fjölbreyttir og sérstaklega áhugaverðir fyrirlestar, þ.m.t. frá heiðursgesti málþingsins, Heikki Lyytinen, prófessor emeritus sem starfar í dag sem fulltrúi UNESCO í læsisátaki á heimsvísu. Hann hefur rannsakað lestur á sínum ferli og eftir hann liggur fjöldi vísindagreina um efnið. Kveikjum neistann byggir m.a. á hans rannsóknum og því var sérstaklega ánægjulegt að Heikki skyldi hafa tök á að vera með erindi á málþinginu sem fjallaði um mikilvægustu þætti lestrarkennslunnar.

Í hléi opnaði mennta- og barnamálaráðherra listasýningu nemenda í 2. bekk í Einarsstofu ásamt fjórum nemendum. Ber hún yfirskriftina Jurtir í Vestmannaeyjum. Sýningin tengir saman Kveikjum neistann og farandsýninguna Solander 250 sem sænska sendiráðið stendur fyrir í samvinnu við sveitarfélög víðsvegar um land. Sænski sendiherrann var viðstaddur opnunina og færði nemendum gjöf í þakklætiskyni.

Þá fluttu þrjár stúlkur úr 3. bekk tónlistaratriði. Viktoría Jónasdóttir lék á flautu og frænkurnar Tinna Karen Benonýsdóttir og Arna Kristín Logadóttir á saxófón. 

Málþingið var afar vel sótt enda einstaklega áhugaverð dagskrá með frábærum fyrirlestrum sem vonandi kveiktu neistann hjá öllum þeim sem höfðu tök á að mæta og þeim sem horfðu á í beinu streymi.

Þeir sem höfðu ekki tök á að mæta eða horfa á málþingið í beinu streymi geta nálgast upptöku af því hér:  Kveikjum neistann

Þá eru allir hvattir til að kíkja í Safnahúsið og skoða listasýningarnar Von og Jurtir í Vestmannaeyjum.