Undirbúningur skólastarfs í GRV er farinn af stað og dagarnir fram að skólasetningu vel nýttir til að skipuleggja starf vetrarins. Það er sérstök tilhlökkun fyrir komandi vetri því nú fer þróunar- og rannsóknarverkefnið Kveikjum neistann formlega af stað í 1. bekk. Starfsdagurinn 17. ágúst var vel nýttur til undirbúnings fyrir verkefnið og segja má að þráðurinn hafi verið tekinn upp þar sem frá var horfið í vor þar sem hinir ýmsu fræðimenn og aðrir gestir, sem styðja við verkefnið, voru mættir aftur með fræðsluerindi fyrir kennara. Jafnframt hittu þeir kennara sem koma að verkefninu á fundum til að taka stöðuna og ræða framhaldið.
Að þessu sinni mættu Hermundur Sigmundsson prófessor við HÍ og NTNU, Svava Hjaltalín sérkennari við Giljaskóla, Monika Haga prófessor við NTNU, Kristín Jónsdóttir dósent og deildarforseti við Menntavísindasvið HÍ, Helgi Rúnar Óskarsson formaður Samtaka atvinnulífsins og Svava Pétursdóttir lektor við HÍ.
Hermundur fór yfir grunnkenningar sem verkefnið byggir á, Svava ræddi um lestrarfærni með áherslu á hið einfalda til hins flókna, Monika fór yfir mikilvægi hreyfifærni og hreysti, Kristín fjallaði um mikilvægi góðra tengsla milli skóla og heimilis og Helgi Rúnar kynnti starfsemi nýstofnaðs rannsóknaseturs um menntun og hugarfar við Menntavísindasvið HÍ en það mun sjá um rannsóknarhluta verkefnisins. Að lokum fjallað Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi um tilgang verkefnisins og hvaða þýðingu það hefur fyrir GRV, Vestmannaeyjar og vonandi skólakerfið á Íslandi þegar fram líða stundir.
Framundan eru frekari kynningar fyrir foreldra barna í 1. bekk og stefnt er á fyrirlestra um hugarfar um grósku fyrir foreldra og starfsmenn í september.
