Vestnorrænir skjalaverðir hittast og bera saman bækur sínar .
Héraðsskjalavörður tók þátt í Vestnorrænni skjalaráðstefnu í menningarmiðstöðinni Katuaq í Nuuk á Grænlandi 1. til 3. september síðastliðinn. Þarna voru samankomnir til skrafs og ráðagerða 20 skjalaverðir frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi, ásamt Erik Nørr frá Landsarkivet for Sjælland í Danmörku. Síðustu árin höfum við hist til skiptis á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Næst munum við hittast á Íslandi árið 2007.
Vegna erfiðleika í samgöngum á milli Íslands og Grænlands eftir 1. september urðum við að fljúga út til Danmerkur þann 30. ágúst og þaðan til Narsarsuaq á Suður-Grænlandi daginn eftir. Síðan tókum við innanlandsflug til Nuuk seinnipart dags. Um kvöldið fórum við út að borða á thailenskum veitingastað skammt frá hótelinu og borðuðum meðal annars krókódíl. Ótrúlegt en satt þarna norður við heimskautsbaug.
Ráðstefnan hófst að morgni 1. september, með opnunarræðu þjóðskjalavarðar Grænlands, Niels Frandsen, hún var síðan uppbyggð af fjórum meginþemum og fór hálfur dagur í að ræða hvert efni.
Fundarstjóri var útnefndur fyrir hvert efni og frummælendur fluttu framsögu frá hverju landi fyrir sig um umræðuefnið. Á eftir var svo tími fyrir spurningar og umræður.
Þennan fyrsta morgun var umræðuefnið rafræn skjalavarsla (elektronisk eða digital arkivering). Íslendingar og Færeyingar ræddu efnið út frá könnunum sem Þjóðskjalasafn Íslands og Føroya Landsskjalasafn hafa gert varðandi rafræna skjalavörslu í löndunum tveimur. Varðandi Grænlendinga þá er ljóst að þeir eru langt á eftir hinum þjóðunum í þróun skjalavörslu. Má áætla að þeir séu 20 árum á eftir. Það er ekkert skrítið þegar þess er gætt að á Grønlands Nationalmuseum og Arkiv vinna aðeins 3 skjalaverðir. Voru menn sammála um það að þó að margt hefði áunnist á liðnum árum þá ættu löndin en langt í land með að búa við viðunandi reglur á þessu sviði.
Eftir hádegi tóku svo við framsöguerindi um byggingarsögu eða húsasögu (bygningshistorie). Þarna spurðum við okkur spurninga eins og hvaða heimildir höfum við sem varpa ljósi á sögu bygginga, bæjarhluta eða skipulags? Veita þessar heimildir manni svigrúm til þess að skrifa sögu einstakra bygginga ofl.? Á að geyma allar húsateikningar? Fjörugar umræður urðu sem vafalaust munu halda áfram á næsta fundi okkar.
Föstudagsmorguninn 2. september hófst dagskráin með framsöguerindum um stjórnsýslusögu (administrationshistorie). Þetta efni er framhald frá fundinum í Þórshöfn í Færeyjum fyrir tveimur árum. Þá var rætt um æðsta embættismanninn á hverjum stað, en nú var áhersla lögð á innlenda embættismenn, og samanburður á milli landa skoðaður. Við Íslendingar völdum að ræða um skjalasöfn hreppstjóra og rákum sögu embættanna síðustu aldirnar.
Eftir hádegi tóku við framsögur um samstarfsverkefni á milli landanna þriggja. Nú þegar er um nokkur samstarfsverkefni að ræða og önnur eru í burðarliðnum. Að lokum tók við framsöguerindi frá Erik Nørr frá Landsarkivet for Sjælland þar sem að hann fræddi okkur um stjórnsýsluheimildir varðandi Norður-Atlantshafslöndin og dönsku nýlendurnar í Karíbahafinu. Einnig bar hann saman heimildirnar frá hinum ýmsu löndum. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður á Maximut, stórskemmtilegu veitingahúsi beint á móti hótelinu og okkur boðið upp á sauðnaut í aðalrétt.
Laugardaginn 3. september var svo skipulögð fyrir okkur mjög fróðleg og lærdómsrík heimsókn á Grønlands Nationalmuseum og Arkiv. Eftir hádegi var síðan skoðunarferð um Nuuk þar sem við meðal annars heimsóttum kirkjuna í Nuuk. Að lokum var farið með okkur út á flugvöll um borð í þyrlu og flogið með okkur út í Vonarey (Håbets ?) á Godthaabsfirði þar sem gamalt grænlenskt þorp var skoðað og síðan lent við minnismerkið um Hans Egede rétt við rústirnar á fyrsta húsi hans á Grænlandi.
Sunnudaginn 4. september notuðum við til þess að skoða Nuuk á eigin vegum. Meðal annars fórum við að háskólanum í Grænlandi og skoðuðum kirkjugarðinn í Nuuk sem er upplifun út af fyrir sig.
Á mánudagsmorguninn lögðum við svo af stað í hina löngu ferð heim. Við flugum frá Nuuk til Kangerlussuaq (Syðri Straumfjörður) og þaðan með Airbus breiðþotu til Kaupmannahafnar og heim til Íslands um kvöldið.
Jóna Björg Guðmundsdóttir .Héraðsskjalavörður
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.