Enginn veit sem sagt hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Hindranalaus og náin samskipti við vini og ættingja höfum við hingað til tekið sem gefin og sjálfsögð. Faraldurinn hefur kennt okkur að svo er ekki; og þá um leið kannski kennt okkur að meta betur hvað þessi mannlegu samskipti eru okkur óendanlega mikilvæg og stór hluti af lífsgæðum okkar. Það er einmitt ekki síst á stórhátíðum eins og jólum og áramótum sem við finnum hvað þessi nánd við ástvini er okkur dýrmæt.
Þrátt fyrir allar þessar áskorannir sem eru framundan er ákaflega bjart framundan í rekstri Vestmannaeyjabæjar og raunar í öllu samfélaginu okkar. Við sjáum líka þessa bjartsýni raungerast út um allan bæ í fjárfestingum og uppbyggingu á vegum fyrirtækja og einstaklinga. Tækifærin eru mörg, meðal annars í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi og sókn í menntamálum og umhverfismálum.
Það er og verður alltaf eðalsmerki okkar hér í Eyjum að standa saman og halda áfram!
Ég óska Vestmannaeyingum öllum gleðilegra jóla og vona að nýtt ár verði okkur öllum gæfuríkt og gott.
Íris Róbertsdóttir
Bæjarstjóri
