Fara í efni
01.02.2023 Fréttir

Janúarpistill - útköll og æfingar

Árið byrjaði nokkuð vel hjá okkur þar sem engin útköll bárust vegna skotelda um áramót og þrettánda eins og svo oft áður en það má líka eflaust þakka að einhverju leiti þeim mikla snjó sem lá yfir allri eyjunni yfir jól og áramót.

Deildu

Fyrsta útkall ársins kom svo aðfaranótt miðvikudagsins 25.janúar þegar boð bárust frá brunaviðvörunarkerfi gistihúss sem reyndust svo sem betur fer aðeins vera vegna bilunar í kerfinu/skynjara.
Annað útkall kom svo nokkrum dögum síðar þegar tilkynnt var um nokkra unga drengi sem voru að kveikja í pappírshrúgu á stéttinni framan við Sagnheima/bókasafnið. Eldurinn var sem betur fer lítill og fljót slökktur og mikil mildi að hann var ekki nær öðru brennanlegu efni.
Það kann yfirleitt ekki góðri lukku að stýra þegar börn og eldfæri fara saman og viljum við hvetja foreldra að hafa varann á og brýna fyrir sínum börnum hætturnar sem svona fikt getur valdið.
Fyrstu tvær æfingar ársins eru líka búnar og þar sem veðrið hefur ekki alveg verið með okkur í liði undanfarið og við erum komnir með svona líka ljómandi fína aðstöðu að þá héldum við þær bara innandyra á slökkvistöðinni. 
Á fyrri æfingunni var farið yfir hluta búnaðarins auk þess sem við skiptum um dælu í tankbílnum okkar þar sem sú "eld"gamla var endanlega komin á tíma og orðin algjörlega ósamvinnuþýð. Var "lausa" dælann okkar því færð af kerrunni og sett í tankbílinn þar til við fáum nýja í tankbílinn. Á seinni æfingunni var svo farið yfir fallvarnabúnað, stiga og tryggingar.