Fara í efni
03.06.2021 Fréttir

Íslandsbanki gefur Vestmannaeyjabæ málverk eftir Júlíönu Sveinsdóttur.

Íslandsbanki samþykkti þann 26. maí að gefa 203 listaverk í eigu bankans til Listasafns Íslands og annarra viðurkenndra safna.

Deildu

Meðal listaverkanna er undurfagurt málverk eftir einn þekktasta listamann landsins, Eyjakonuna Júlíönu Sveinsdóttur. Samþykkt var af hálfu bankans að listaverkið yrði fært Vestmannaeyjabæ að gjöf og afhent til varðveislu á Listasafn Vestmannaeyja.

Fyrir á safnið fjögur verk eftir Júlíönu, auk vefnaðar og vefstóls, sem eru á sýningu í Sagnheimum. Júlíana var merkur brautryðjandi sem listamaður og fyrst íslenskra kvenna til að gera myndlistina að ævistarfi. Hún fæddist í Vestmannaeyjum og bjó þar til 16 ára aldurs er hún flutti til Reykjavíkur til myndlistarnáms og fáeinum árum síðar til framhaldsnáms í Konunglega danska listaháskólann í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir að Júlíana hafi búið stærsta hluta ævi sinnar í Danmörku og sinnt þar list sinni, voru átthagarnir henni ævinlega kærir. Kom hún til Vestmannaeyja að jafnaði annað hvert sumar til að mála.

Það er því afar dýrmætt fyrir Vestmannaeyjar að eignast eitt af hennar þekktustu málverkum og að Listasafn Vestmannaeyja sé í hópi þeirra opinberu safna þar sem minning Júlíönu Sveinsdóttur er haldið á lofti. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, tók við verkinu fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar og þakka fyrir þessa höfðinglegu gjöf fyrir hönd bæjarins.

Þórdís Úlfarsdóttir útibústjóri, Birna Einarsdóttir bankastjóri, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Una Steinsdóttir framkvæmdarstjóri viðskipabanka.