Eins og jafnan er áhersla lögð á gott samstarf milli bæjarbúa og fræðsluyfirvalda þar sem megin áherslan er lögð á velferð og vellíðan barnanna.
Nú, þegar fjöldi barna og starfsmanna kemur saman í skólanum, er hætt við að inflúensan, sem er farin að stinga sér niður á Íslandi, nái sér á strik. Bæjarbúar eru beðnir um að taka leiðbeiningar Landlæknisembættisins varðandi inflúensufaraldur alvarlega og fara í öllu eftir ráðleggingum sem þar koma fram. Rík áhersla er lögð á handþvott og að foreldrar haldi börnunum heima ef grunur leikur á að þau séu smituð.
Inflúensan uppgvötvaðist fyrst í mönnum í Mexico í apríl 2009. Sjúkdómurinn berst hratt um heiminn og hefur borist til flestra landa heims, þar á meðal Íslands. Fyrsta tilfelli á Íslandi greindist 23. maí 2009.
Sóttvarnarlæknir og ríkislögreglustjóri hafa útbúið viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu. Viðbúnaðaráætlunin nær yfir alla þætti samfélagsins því nauðsynlegt er að halda uppi mikilvægum samfélagsstoðum. Á vef sóttvarnalæknis www.influensa.is má nálgast allar fréttir og leiðbeiningar um inflúensu A.
Nokkur mikilvæg atriði:
Smitleiðir – rétt er að benda sérstaklega á að inflúensa smitast með dropum og úða úr öndunarvegi (hósti og hnerri) og með höndum sem mengaðar eru af veirunni. Best vörnin er hreinlæti og þar skiptir handþvottur mestu máli.
Einkenni sýkingar – skyndilegur hiti, hálsbólga, hósti, beinverkir, höfuðverkur og slappleiki.
Áhættuhópar – það eru aðallega einstaklingar með undirliggjandi heilsufarsvandamál eða sjúkdóma. Einnig virðist flensan leggjast þungt á þungaðar konur.
Meðferð – þeim, sem fá inflúensulík einkenni, er ráðlagt að hringja til næstu heilsugæslustöðvar. Þeir sem hafa veikst af inflúensu A (H1N1) (staðfest) eiga að vera heima í 7 daga í sóttkví (heimasóttkví) og helst umgangast bara einn fjölskyldumeðlim ef kostur er, hvíla sig og drekka vel. Nota má hitalækkandi lyf við hita og beinverkjum. Þau lyf sem eru fáanleg gegn inflúensu eru Relenza (zanamivir) og Tamiflu (oseltamivir) og er A(H1N1) veiran næm fyrir þessum lyfjum. Rétt er að benda á að lyf gagnast einungis ef þau eru gefin fyrstu tvo daga veikinda, eftir það eru þau gagnlaus. Ekki er talið að allir þeir sem smitast af veirunni þurfi á lyfjum að halda.
Bólusetning – Bóluefni mun koma hingað til landsins í haust. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hverjir munu fá slíka bólusetningu. Það er því á ábyrgð einstaklingsins að huga að eigin vörnum.
Fjölskyldu- og fræðslusvið Vestmannaeyjabæjar