Fara í efni
06.02.2023 Fréttir

Iðjuþjálfun

Iðjuþjálfunarfræði er blanda af heilbrigðis- og félagsvísindum og byggir á mjög heildrænni sýn. Í grunninn erum við öll iðjuverur, við ýmist stundum iðju sem við þurfum að sinna og iðju sem okkur langar til þess að geta sinnt. 

Deildu

Þegar skjólstæðingar okkar iðjuþjálfa geta af einhverjum ástæðum ekki sinnt þeirri iðju sem þeir þurfa eða vilja geta sinnt þá er okkar að beita heildrænni nálgun til þess að greina iðjuvandann og vinna út frá honum.

Iðjuþjálfar eiga ógrynni af viðtals- og áhorfsmatstækjum sem eru notuð til þess að meta iðjuvanda fólks. Við vinnum alltaf út frá einstaklingnum, iðjunni og umhverfinu. Við fáum að kynnast einstaklingnum og metum hvernig einstaklingsbundnir þættir eins og sjúkdómar, persónueinkenni, áhugasvið og annað hefur áhrif á þá iðju sem einstaklingur stundar. Við skoðum umhverfi einstaklingsins, efnislegt og félagslegt og metum hvort það styðji við eða hindri þátttöku hans í iðju. Einnig horfum við á iðjuna sjálfa. Er hún of krefjandi? er hún of einföld? þarf að aðlaga iðjuna svo hún henti einstaklingnum og hans færni? Þurfum við að innleiða notkun hjálpartækja til þess að iðjan sé framkvæmanleg?

Iðjuþjálfar geta starfað víðs vegar í samfélaginu, bæði innan heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustunnar, innan leik- og grunnskóla, hjá félagasamtökum og svo lengi mætti telja. Starf iðjuþjálfa getur haft ólíkar birtingarmyndir eftir því hvar þeir starfa en megin markmiðið er alltaf að hámarka lífsgæði fólks með þátttöku í iðju sem hefur persónulegan tilgang. Iðjuþjálfar vinna til dæmis að heilsueflingu, geðrækt, forvörnum, endurhæfingu, vinnuvistfræði, hjálpartækjamiðlun, heimilis- og vinnustaða úttektum o.fl.

Iðjuþjálfun hjá Vestmannaeyjabæ

Iðjuþjálfun er nýtilkomin viðbót hjá Vestmannaeyjabæ og er því enn í töluverðri mótun. Í dag sinni ég ráðgjöf til leik- og grunnskóla bæjarins sem og dagdvalar aldraðra. Á næstu misserum munum við svo fara af stað með Endurhæfingu í heimahús sem er spennandi viðbót við það starf sem ég sinni nú þegar hjá Vestmannaeyjabæ.

Iðjuþjálfun í leik- og grunnskólum

Hlutverk mitt í leik- og grunnskólum Vestmannaeyja er að veita ráðgjöf vegna nemenda til starfsfólks skólanna, foreldra og forráðamanna.

Að vera nemandi felur í sér að taka þátt í almennu skólastarfi, vera vinur, fara í íþróttir, borða hádegismat, lesa, skrifa o.s.frv. Allt getur þetta orðið fyrir töluverðu raski búi börn við langvarandi veikindi eða fötlun. Mitt hlutverk er að koma auga á iðjuvanda barns, setja markmið í samstarfi við barn, aðstandendur og kennara og útfæra íhlutunaráætlun út frá settum markmiðum. Íhlutun getur til dæmis falið í sér að aðlaga skólaumhverfi að þörfum barns svo það geti sinnt námi eða að styrkja einstaklingsbundna þætti, eins og t.d. fín- og grófhreyfifærni.

Ráðgjöf til foreldra og aðstandenda snýr meira að því sem tengist heimilislífinu og hvernig hægt er að stuðla að aukinni sjálfsbjargargetu barna. Tekið er mið af færni barna við klæðnað, persónulega umhirðu, við að matast o.þ.h. Út frá því vinn ég einstaklingsbundna áætlun sem mætir börnunum þar sem þau eru stödd.

Iðjuþjálfun í dagdvöl

Markmiðið með dagdvöl aldraðra er að draga úr félagslegri einangrun og viðhalda sjálfstæði einstaklinga svo þeir geti búið sem lengst heima og upplifað öryggi. Hlutverk mitt er að stuðla að virkri þátttöku einstaklinganna í iðju sem reynir bæði á líkamlega og vitsmunalega færni en það viðheldur og ýtir undir aukna sjálfsbjargargetu. Í dagdvölinni leggjum við upp með að hafa fjölbreytta dagskrá svo allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Sem iðjuþjálfi hef ég yfirumsjón með sérhæfðri þjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun sem er ýmist unnin á einstaklingsgrundvelli eða í hópum. Með þeirri vinnu er hægt að fylgjast vel með breytingum sem verða á færni einstaklinganna og grípa inn í með auknum stuðning og þjálfun.

Endurhæfing í heimahúsi

Endurhæfing í heimahúsi er alþjóðlegt þjónustuúrræði sem á rætur að rekja til Svíþjóðar. Úrræðið er tímabundin þjónusta sem varir í u.þ.b. 4-6 vikur og er ætlað að hvetja og styrkja fólk til aukinnar samfélagsþátttöku, bæta lífsgæði og auka sjálfstæði þeirra sem nýta sér þjónustuna.

Endurhæfing í heimahúsi í Vestmannaeyjum er samvinnuverkefni milli Vestmannaeyjabæjar og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) sem verður leitt af iðjuþjálfa. Mitt hlutverk er að meta þjónustuþörf, skipuleggja þjónustu og útvega viðeigandi hjálpartæki. Starfsfólk HSU mun sjá til þess að þjónustuáætlun sé framfylgt með því að sinna innlitum og þjálfun undir leiðsögn iðjuþjálfa. Úrræðið er meðal annars ætlað þeim sem þurfa heimaþjónustu/heimahjúkrun við heimkomu eftir innlögn á sjúkrahús, í kjölfar veikinda, áfalla o.þ.h. Markmiðið er að fólk geti sinnt nauðsynlegri iðju eins og að klæðast, versla í matinn, elda og fara í sturtu svo dæmi séu tekin. Með þessu móti stuðlum við að því að fólk geti búið við öryggi og lífsgæði þrátt fyrir breytta færni.

- Sonja Finns, iðjuþjálfi