Fara í efni
23.01.2024 Fréttir

Í dag eru 51 ár síðan gos hófst á Heimaey

Þessi nótt og þeir mánuðir sem á eftir komu, líða aldrei úr minni þeirra sem upplifðu þetta gríðalega áfall. Hér að neðan er ræða sem ég flutti á goslokahátíðinni sl. sumar í tilefni af 50 ára goslokum.

Deildu

Það er við hæfi að birta hana hér sem hvatningu fyrir Grindvíkinga á þessu erfiður óvissu tímum. Það mun birta til.

Skannsinum 3. júlí 2023:

"Nú eru nákvæmlega 50 ár og einn dagur frá því að fimm vaskir Eyjapeyjar fóru með Þorbirni Sigurgeirssyni, prófessor, ofan í botn gígsins í Eldfelli. Þetta var að kvöldi 2. júlí 1973 og Eyjapeyjarnir voru þeir Guðmundur Sigfússon, Hlöðver Johnsen, Óskar Svavarsson, Sigurður Sigurbergsson og Svavar Steingrímsson. Þegar upp var komið tilkynnti prófessorinn niðurstöðu sína: Gosinu er lokið! Þetta var svo opinberlega gefið út eftir hádegi 3. júlí - fyrir nákvæmlega 50 árum.

Þetta orð, GOSLOK, hefur alltaf haft yfir sér töfraljóma hér í Eyjum. Það breytti öllu í lífi þúsunda Eyjamanna. Eftir sex mánaða fullkomna óvissu um eigin framtíð og lífsskilyrði tóku bjartsýni og gleði völdin. Fjölmargir flykktust heim til fastrar búsetu, raunar svo margir að Andri Hrólfsson, þá forstöðumaður Ferðamannamiðstöðvarinnar, sá ástæðu til að benda íbúum á að ,,enn vantar algjörlega rafmagn“ og aðstæður því engar til að taka á móti nokkrum fjölda hingað. En eins og Andri bætti við þá fer ,,ástandið jafn og þétt batnandi“ og síðar í sumar eða haust færi að rætast úr. En stór hluti íbúa hugsaði eins og Óli Fúsa sem kom með fyrstu vél til Eyja og sagði þegar hann steig út úr flugvélinni: Jæja, þá er maður bara hættur í fríinu og kominn heim!

Magnús H. Magnússon, bæjarstjóri, Maggi bæjó, er ein ástæða þess að við komum til baka fremur á vængjum bjarsýninnar en skynseminnar. Hann var óþreytandi við að hvetja fólk til að koma heim og taka þátt í uppbyggingunni - enda eins og hann sagði í einu af sínum óteljandi viðtölum við fjölmiðla: ,,Vestmannaeyingar þekkja ekki annað þegar mikið liggur við, en framkvæmd, framkvæmd og aftur framkvæmd - án tafar.“

Íbúar tóku því að streyma til baka löngu áður en nokkurt vit var í, í raun og veru, að hefja hér aftur fasta búsetu. Sjálfboðaliðar bæði hérlendir og erlendis frá lögðu heimamönnum öflugt lið við að hreinsa bæinn, rífa hann smám saman upp úr öskustónni í þess orðs fyllstu merkingu. Og reykurinn frá fiskvinnslufyrirtækjunum tók að liðast um bæinn og leysa gosmökkinn loksins, loksins, af hólmi. Byggðarlagið var að rísa upp aftur, samfélag hert í eldi var komið til baka.

Mín fjölskylda á sér líka sögu um heimkomu eins og svo margar aðrar. Við vorum á leið að flytja til Noregs þegar mamma heyrði í Magnúsi bæjarstjóra í útvarpinu þar sem hann hvatt fólki til að flytja aftur heim og taka þátt í uppbyggingunni: hér væri allt orðið grænt! Mamma svaraði kallinu og auðvitað fylgdi pabbi henni og við systur – en það var nú mest svart ennþá!

En gleymum því ekki að hér undir hrauninu eru tæplega 400 hús sem fólk missti í gosinu. Á hátíðarfundi bæjarstjórnar fyrr í dag var samþykkt að gera sögu þessara húsa, og fólksins sem þar bjó, aðgengilega nýjum kynslóðum með nýrri tækni. Þessi saga má aldrei gleymast.En það er alveg sama hversu hugrökki við vorum hér í Eyjum; við hefðum aldrei getað gert þetta ein. Sem betur fer áttum við vini sem stóðu með okkur og það er á engan hallað þótt ég nefni sérstaklega Norðurlöndin og Bandaríkin. Norðurlöndin stóðu líklega fyrir um 30% af kostnaði við enduruppbygginguna hér í Eyjum - og skjót viðbrögð bandaríska hersins gerðu okkur kleift að hefja hraunkælinguna sem bjargaði höfninni - og líklega bænum. Aðrar þjóðir lögðu einnig mikið af mörkum og fulltrúar margra þeirra eru með okkur hér í dag. Ég vil þakka þeim öllum frá dýpstu hjartarótum okkar Eyjamanna!

Fyrir hönd Vestmannaeyinga vil ég líka þakka alveg sérstaklega því öfluga og góða fólki sem var hér á gos tímanum og barðist við náttúruöflin. Mörg þeirra eru stödd hér með okkur í dag. Ég ber ómælda virðingu fyrir ykkur. Án ykkar værum við ekki hér í þessum blómlega og öfluga bæ. 

Og það er einmitt með því að halda áfram að bæta og byggja upp bæinn okkar sem við heiðrum best verk og minningu þess fólks sem gerði okkur kleift að eiga hér heima."

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri