Fara í efni
10.11.2005 Fréttir

Hver er staða vímuefnaneyslu ungs fólks í Eyjum?

Félags- og fjölskyldusvið Vestmannaeyjabæjar vill vekja athygli á nýrri skýrslu frá Rannsóknir & greining. Skýrsla þessi greinir frá niðurstöðum rannsókna
Deildu

Félags- og fjölskyldusvið Vestmannaeyjabæjar vill vekja athygli á nýrri skýrslu frá Rannsóknir & greining. Skýrsla þessi greinir frá niðurstöðum rannsókna á vímuefnaneyslu nemenda í 9. og 10. bekk vorið 2005.

Í þessari skýrslu er fjallað um niðurstöður kannana sem lúta að stöðu vímuefnaneyslu nemenda í 9. og 10. bekk í Vestmannaeyjum skólaárið 2004-2005. Skoðað er hversu hátt hlutfall nemenda í efstu bekkjum grunnskóla í Vestmannaeyjum reykja sígarettur, neyta áfengis, tóbaks og ólöglegra vímuefna. Fram kemur samanburður frá árinu 2000 að undanskildu árinu 2004. Niðurstöður eru sláandi varðandi notkun nemenda á munn- og neftóbaki sem og fikti við sniff. Hlutfall nemenda sem hafa orðið ölvaðir hefur verið jafnt og þétt niður á við á landsvísu en í Vestmannaeyjum er hlutfallið yfir landsmeðaltali árið 2005. Ánægjulegt er að enginn nemandi í umræddri skýrslu segist hafa notað hass árið 2005.

Þessi skýrsla er þriðja og síðasta skýrslan frá Rannsóknir & greining til félags- og fjölskyldusviðs Vestmannaeyja frá árinu 2001. Kaup á þessum skýrslum var liður í forvarnarátaki sviðsins sem hófst árið 1997. Allar fjórar skýrslurnar eru til staðar á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.

Áreiðanlegar upplýsingar um hag og líðan ungs fólks er mikilvægt vopn í baráttunni gegn útbreiðslu vímuefna. Það er von félags- og fjölskyldusviðs Vestmannaeyjabæjar að þessar skýrslur vekji málefnalegar umræður um stöðu ungs fólks í Vestmannaeyjum og verði jafnframt innlegg í markvissa stefnumótun og árangursríkt forvarnarstarf.

Rétt er að benda á að á þessarri haustönn hefur staðið yfir stefnumótunarvinna á vegum félags- og fjölskyldusviðs og fræðslu- og menningarsviðs með ?Vertu til" verkefnahópi á vegum Lýðheilsustofnunar. Á þá fundi hafa mætt helstu lykilaðilar í forvörnum í Vestmannaeyjum og stefnt er að því að skila niðurstöðum þessarrar vinnu fyrir áramót.

fh. félags- og fjölskyldusviðs Vestmannaeyjabæjar

Jón Pétursson sálfræðingur