- ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, var viðstaddur opnun á sýningu vegna 100 ára afmælis vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum. Einar flutti stutt ávarp að því tilefni þar sem hann sagði Eyjamenn hafa sýnt djörfun og dug með því að fara fyrstir á fjarlæg mið. Ræðu Einars má lesa hér.
25. nóvember 1902 og 29. nóvember sama ár eru líklega dagsetningar sem fæstir hafa nokkurn tímann lagt á minnið. Þó marka þær upphaf mestu framfarasóknar í íslenskri atvinnusögu. Hinn 25. nóvember var farin fyrsta reynsluferðin á íslenskum vélbáti, Stanley, um Pollinn á Ísafirði og fjórum dögum síðar fór forvígismaðurinn Árni Gíslason í fyrstu veiðiferðina á vélbáti. Þess má geta að Árni var langafi Þorsteins Pálssonar fyrrverandi forsætis- og sjávarútvegsráðherra, sem einnig var 1. þingmaður Suðurlands og þar með þingmaður Eyjamanna.
Í raun og veru urðu hér algjör þáttaskil. Fram til þessa höfðu Íslendingar sótt sjóinn með svipuðu fyrirkomulagi og frá upphafi Íslandsbyggðar. Menn notuðu segl og árar í meira en þúsund ár. Segja má að þessa vetrardaga á Ísafirði, skömmu fyrir aðventuna árið 1902 hafi vélaöldin hafið innreið sína í íslenskan sjávarútveg og hefur sennilega fæsta órað fyrir því hvað hún ætti eftir að hafa í för með sér.
Framfarasinnaða menn var að finna í öllum landsfjórðungum og á fyrsta áratug síðustu aldar leystu vélbátar áraskip af hólmi í flestum verstöðvum landsins. Eyjamenn skáru sig úr fjöldanum því með vélvæðingu báta sinna hófu þeir að sækja á nýjar veiðislóðir, allt vestur undir Reykjanes og austur með landi. Aðrir fóru hins vegar varlegar í sakirnar til að byrja með og fólst meginbreytingin víðast hvar í því að úthaldstíminn lengdist en miðin voru þau sömu í fyrstu. Eyjamenn sýndu sem sagt strax í upphafi bæði djörfung og dug sem alla tíð hefur einkennt þessa miklu verstöð. Þeir fóru fyrstir á fjarlæg mið.
Í hugum flestra er vélvæðing í sjávarútvegi og tilkoma togaranna í upphafi síðustu aldar tákn iðnbyltingar á Íslandi. Með henni varð verðmætaaukning í þjóðarbúskapnum slík, að þær breytingar sem urðu á samfélaginu í kjölfarið, á undraskömmum tíma, eiga sér vart hliðstæður meðal þjóða. Frá 1905-1930 áttfaldaðist botnfiskafli landsmanna og síldaraflinn jókst enn meira. Þegar litið er til atvinnusögu okkar þá hlýtur upphaf vélvæðingar þýðingarmesta atvinnuvegarins að rísa hæst.
Fyrir arðinn af sjávarútvegi og margföldunaráhrif hans lögðu Íslendingar á undraskömmum tíma grunninn að því velferðarkerfi sem við búum við í dag. Þetta hefur oft verið þakkað framsýnum athafnamönnum sem höfðu áræði, kjark og þor til að leggja grunninn að því að fleyta þjóðinni inn í alþjóðlegan nútímann. Þar er örugglega ekkert ofmælt. En við skulum ekki gleyma öllum þeim konum og körlum sem með framlagi sínu gerðu þetta mögulegt. Þeim ber ekki síst heiðurinn.
Vélvæðing bátaflotans var ekki bara bylting í sjávarútvegi, heldur einnig í öðrum atvinnuháttum. Jessen hinn 19 ára danski piltur, sem fékk það hlutverk að setja niður fyrstu vélina í Stanley og kenna Íslendingum á hana, setti upp vélsmiðju á Ísafirði til þess að geta þjónað ört stækkandi vélbátaflota á Vestfjörðum. Var þetta "mótórverkstæði" hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi.
Vélvæðingin kallaði á nýja verkþekkingu. Vélsmiðjur risu, menn öfluðu sér kunnáttu í meðferð véla og smám saman verð til þekking út um landsins byggðir sem ekki hafði verið til staðar. Menn létu ekki einangrun aftra sér; hlustuðu ekki á úrtöluraddirnar, sem sögðu að slíkri útgerð yrði ekki komið á nema að til staðar væri áður verkkunnátta sem að gagni gæti komið. Á slíkt blésu frumkvöðlarnir. Þeim var það ljóst að til þess að áfram gæti miðað yrðu þeir að brjóta sér leið. Innleiða þekkinguna og skapa hana með reynslu sinni.
Þótt flotinn væri að mestu vélvæddur á fyrsta áratug 20. aldarinnar átti það sama ekki við um landvinnsluna. Hartnær þrjátíu ár liðu að blásið var til nýrrar sóknar í fiskvinnslu og framleiðsluháttum með fyrstu frystihúsunum árið 1935. Fram að því var verkunin öll unnin með höndunum og engin vélvæðing var í landvinnslu nema þá helst við uppskipun og flutning afla. Vélvæðingin beindist þannig að öflun hráefnisins en ekki vinnslu afurðanna. Á þessum sjötíu
árum sem liðinn er frá því að hraðfrystihúsin hófu starfsemi sína hefur orðið bylting í framleiðsluháttum, sem er kunnari en frá þarf að segja. Þar kemur auðvitað til aukin tækniþekking en hún byggist ekki hvað síst á þeirri verkþekkingu sem fyrir er á hverjum tíma.
Ótrúlega stutt er síðan að vélvæðingin á Íslandi hófst og við þekkjum mörg hver fólk sem stundaði sjóinn í atvinnuskyni á árabátum. Vélvæðingin hófst tiltölulega seint hér á landi, en menn innleiddu hana af þeim mun meiri krafti. Íslensk athafnaþrá kristallaðist á þessum árum og var forsenda þeirrar lífskjarsóknar á fyrri hluta tuttugustu aldar sem Jón Þorláksson forsætisráðherra kallaði frá örbirgð til bjargálna. Athyglisvert er einnig að þetta voru framfaratímar að öðru leyti í íslenskri þjóðarsögu. Þarna fara að rætast stærstu draumar þjóðarinnar í sjálfstæðismálum, við uppbyggingu félagsstarfs og í annarri uppbyggingu atvinnulífsins. Vélvæðingin í sjávarútvegi hélst því í hendur við stóru framfaraskrefin í íslenskri þjóðarsögu að öðru leyti.
Birt með leyfi ritsjóra af eyjar.net
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.