Í Heimaey er því nú ekki einungis unnið að framleiðslu kerta eins og áður var heldur fer þar fram heildstæð þjónusta við fatlaða. Þar er til að mynda veittur stuðningur við félagsstarf fatlaðra, lengd viðvera og fl. Auk atvinnutengdra verkefna er unnið með persónulega umhirðu, heimilishald, félagslega þætti, hreyfingu, tómstundir og afþreyingu. Þá hefur verkefnum verndaðs vinnustaðar verið fjölgað og stærst þessara nýju verkefna er móttaka einnota umbúða fyrir endurvinnsluna. Starfsmenn Heimaeyjar eru stöðugt að leita að nýjum verkefnum og sjást þess ekki hvað síst merki í öflugu handverksstarfi og framleiðslu listmuna.
Nú þegar vetur gengur í garð er full ástæða til að hvetja Eyjamenn til að kynna sér vöruúrvalið hjá þessu öfluga handverksfólki. Allir þekkja vönduðu kertin en nú hefur bæst við fjölbreytt úrval af handgerðum listmunum. Verið velkomin.