Fara í efni
15.01.2026 Tilkynningar

Heilsuefling starfsfólks Vestmannaeyjabæjar: Nýtt samstarf við LifeLine Health

Vestmannaeyjabær hefur gert samstarfssamning við LifeLine Health, nýja íslenska heildræna heilsuþjónustu á vegum lækna, um heilsufarsskoðanir og heilsueflingu fyrir starfsfólk bæjarins. Verkefnið fer af stað í febrúar 2026 og er markmiðið með því að styðja við heilbrigði, vellíðan og forvarnir starfsfólks með faglegri og einstaklingsmiðaðri nálgun. Verkefnið í takt við Mannauðsstefnu Vestmannaeyja þar sem rík áhersla er lögð á heilsueflingu, vellíðan og öryggi starfsmanna.

Deildu
heilsuefling, forvarnir, samningur

LifeLine Health byggir þjónustu sína á fjórum grunnstoðum heilsu: hreyfingu, næringu, svefni og andlegri heilsu, með áherslu á persónulega nálgun, faglega ráðgjöf og heildræna sýn á heilsu einstaklinga. Að þjónustunni standa íslenskir læknar, þar á meðal Victor Guðmundsson, Eyjamaður með meiru og einn af stofnendum LifeLine Health.

Einfalt og aðgengilegt ferli

Heilsufarsskoðanirnar eru hannaðar til að vera einfaldar, skilvirkar og aðgengilegar fyrir starfsfólk. Ferlið felur meðal annars í sér spurningalista um heilsu og lífsstíl, mælingar og blóðprufu samkvæmt nánara skipulagi og viðtal við lækni þar sem niðurstöður eru útskýrðar og sett fram persónuleg ráðlegging. Þátttaka er valkvæð og gildir full trúnaðarskylda um allar heilsufarsupplýsingar. Með þessu samstarfi er Vestmannaeyjabær að stíga markviss skref í átt að öflugri forvörnum, aukinni vellíðan og bættri heilsu starfsfólks til framtíðar. Nánari upplýsingar um framkvæmdina munu berast starfsfólki í tölvupósti þegar nær dregur, en ætlunin er að byrja með tvo vinnustaði.

Jákvæð viðbrögð og breiður stuðningur

Á fundi sem haldinn var nýverið með fulltrúum bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, Victori Guðmundssyni lækni og Vigni barnalækni, sem einnig hefur komið að uppbyggingu LifeLine Health, voru framtíðarplön þjónustunnar kynnt. Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og Björn Skúlason tóku jafnframt þátt í fundinum, en viðbrögð við verkefninu eru afar jákvæð og ríkir mikil samstaða um mikilvægi þess að fjárfesta í heilsu og vellíðan starfsfólks.

Ég er mjög stoltur af því að LifeLine Health hefji þessa vegferð hér, en ég ber sterkar tilfinningar til Vestmannaeyja og þau búa yfir öflugu samfélagi og mikilli orku til að skapa og innleiða nýjar lausnir. Það er líka mikill heiður að fá Veru Lífsgæðasetur til liðs við verkefnið, en þar er fjölbreyttur hópur af fagfólki sem tryggir faglega, persónulega og heildræna nálgun í allri þjónustunni,“ segir Victor Guðmundsson læknir.