Fara í efni
18.12.2020 Fréttir

Gott samtarf Víkurinnar og Hraunbúða

Á síðustu árum hefur Víkin 5 ára deild lagt áherslu á gott samstarf við Hraunbúðir þar sem samverustundir gleðja bæði börnin og heimilisfólkið á Hraunbúðum. 

Deildu

Börnin hafa kíkt í heimsókn í föndurstofuna í litlum hópum þar sem þau teikna myndir, föndra og spjalla við heimilisfólkið. Einnig hafa öll börn á Víkinni komið saman einu sinni í mánuði í sjónvarpshol Hraunbúða og sungið nokkur lög sem þau hafa verið að æfa á Víkinni þann mánuðinn.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur samstarfið verið með öðrum hætti þetta skólaárið. Því miður hafa börnin ekki fengið tækifæri til þess að koma inn á föndurstofuna en við bindum vonir við að það verði möguleiki með vorinu. Ákveðið var þó að leita lausna til þess að gleðja bæði börnin og heimilisfólkið á Hraunbúðum á þessum fordæmalausu tímum og hafa söngstundir síðustu tvo mánuði ekki fallið niður. Í stað þess að syngja inni þá hafa börnin sungið fyrir heimilisfólkið úti í gegnum gluggana. Börnin byrja á því að syngja hjá matsalnum, síðan færa þau sig á pallinn við enda græna gangsins og enda síðan á pallinum sunnan megin við Hraunbúðir sem snýr að sólhúsinu. Með því að syngja á fleiri en einum stað þá fær allt heimilisfólk Hraunbúða tækifæri til þess að njóta söngstundarinnar. Bæði börnin á Víkinni 5 ára deild og heimilisfólk bíða spennt í hverjum mánuði og vonum við innilega að við getum notið fleiri samverustunda inni á Hraunbúðum þegar aðstæðurnar í samfélaginu verða orðnar betri.