Vísbendingar voru um að gosið væri í rénun þegar kom fram á sumarið. Hreinsun bæjarins hófst strax um veturinn og með hækkandi sól hófst uppgræðsla. Bjartsýni Eyjamanna jókst og um sumarið byrjaði fólk að flytja heim á ný.
Það síðasta sem heyrðist frá eldfjallinu sem nú reis yfir bæinn var nokkurra mínútna prump þann 26. júní. Það var svo þann 3. júlí að Almannavarnanefnd tilkynnti að gosinu væri lokið að mati vísindamanna.
Þessara tímamóta minnast Eyjamenn í dag. Þó eyðileggingin væri mikil var margt að þakka því allir sem bjuggu í Eyjum þegar byrjaði að gjósa komust heilir upp á land á skipum og bátum.
Í goslok tók við mikið uppbyggingarstarf sem hefur skilað okkur nútíma sveitarfélagi í fremstu röð. Þess minnumst við um helgina ásamt því að Vestmannaeyjabær fagnar 100 ára kaupstaðarafmæli á árinu.
