Fara í efni
24.12.2023 Fréttir

Gleðilega hátíð

Þegar ég var lítil stúlka þótti mér tíminn frá einum jólum til þeirra næstu vera óralangur. Þegar ein jól voru búin fannst mér svo langt í þau næstu að þau voru eiginlega óraunveruleg.

Deildu

Núna finnst mér alltaf eins og að síðustu jól hafi bara verið í síðasta mánuði og örstutt síðan tréð og skrautið var sett upp. Alltaf eru jólin samt jafn dýrmæt til samveru við fjölskyldu og vini.

Árið sem nú er að líða er merkisár í sögu okkar Eyjamanna. Fimmtíu ár voru liðin frá gosinu hér á Heimaey og við minntumst þess með ýmsum hætti. Það var áhrifamikið 23. janúar þegar farin var blysför frá Landakirkju í Eldheima, þar sem m.a. forseti Íslands og forsætisráðherra voru viðstödd hátíðlega minningarstund. Af þessu tilefni heiðruðu forsætisráðherrar Norðurlandanna og Kanada okkur með því að halda fund sinn hér í aðdraganda Goslokahátíðar og hátíðin sjálf var óvenju glæsileg. Setningarathöfnin var á Skansinum að viðstöddum m.a. sendiherrum þeirra ríkja sem mest lögðu af mörkum til að hjálpa okkur í gosinu og við uppbygginguna í kjölfar þess. Þátttaka í hátíðarhöldunum var mikil og tókust þessir viðburðir allir afar vel og voru okkur öllum til sóma.

Ýmislegt hefur gengið á hjá okkur hér í Eyjum undanfarnar vikur. Miklar truflanir á samgöngum og stórskemmd vatnsleiðsla. En sem samfélag höfum fengið í fangið margar stórar áskoranir í gegnum tíðina og hefur okkur tekist að leysa þær saman og það munum við gera líka í þetta skiptið.

Við getum öll lagt okkar af mörkum með því að sýna náungakærleik í verki og vera góð hvert við annað.

Ég óska Vestmannaeyingum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Ég vil líka þakka fyrir árið sem er að líða og saman horfum við bjartsýnum augum til ársins 2024.

Hátíðarkveðja
Íris Róbertsdóttir