- Fyrir utan hefbundið starf þá tókum við að okkur verkefni fyrir ÍBV og klipptum og plöstuðum Krókodílakortin. Spennan var gríðarleg fyrir þessu verkefni því allt sem gert er fyrir ÍBV er gert með öllu hjartanu enda slær ÍBV hjartað mjög hátt hjá öllum hér.
Starfið í endurvinnslunni og í kertunum er að mestu óbreytt. Þar er mismikið að gera og eru ákveðnir álagstímar. Jólin er álagstími í kertunum og er janúar oftar en ekki álagstími í endurvinnslunni. Þar á milli er nokkuð jafnt og þétt að gera.
Við tókum þátt í frábærtu samstarfsverkefni með Lista og menningafélagi Vestmannaeyja. Þema verkefnisins var okkar ástkæri lundi. Listasýning var haldin og seldust myndirnar okkar eins og heitar lummur auk þess mynduðust langir biðlistar eftir myndum. Eftir þetta ævintýri var ákveðið að halda áfram með listsköpun og stefna á listasýningu á árinu 2021. Þemað er þó enn óákveðið.
Allir föstudagar hafa verið fancy Friday eða þematengdir föstudagar eftir mánuðum til að fá smá tilbreytingu í vikuna og lífið. Hrekkjavöku- og jólapeysuþema voru mjög skemmtileg og sumir fóru all inn í því. Uppáhalds þema hópsins var þó Íslandsþemað þar sem allir mættu í landsliðstreyjum og send var kveðja út til Egyptalands til stákanna okkar í íslenska landsliðinu.
Framundan í starfi okkar eru áframhaldandi tilbreytingadagar á föstudögum eins og til að mynda Bingó, Bíódagur, Kaffihúsastemming, Bocciamót og margt fleira skemmtilegt. Ætlum við að setja inn aukna hreyfingu inn í starfið okkar, huga vel að alhliða hreyfingu og vellíðan. Ásamt því er stefnt að því að auka fjölbreytileika í verkefnum tengt því að auka færni og getu í ýmsum þáttum hins daglega lífs.
