Fara í efni
23.05.2006 Fréttir

Fyrirmyndarstofnun SFR 2006

Málefni fatlaðra í Vestmannaeyjum í 28. sæti af tæplega 300 stofnunum. Könnun SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu á starfsskilyrðum og líðan félagsmanna sinna á vinnustað. SFR - stéttarf
Deildu

Málefni fatlaðra í Vestmannaeyjum í 28. sæti af tæplega 300 stofnunum. Könnun SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu á starfsskilyrðum og líðan félagsmanna sinna á vinnustað.

SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu stóð í fyrsta skipti að könnun meðal félagsmanna sinna á starfsskilyrðum og líðan þeirra á vinnustað undir heitinu Stofnun ársins. Könnunin var framkvæmd í samstarfi við VR, sem hefur gert könnun sem þessa meðal félagsmanna sinna á almennum vinnumarkaði í áratug, með jákvæðum árangri fyrir bæði starfsmenn og stjórnendur.

Embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins var valin stofnun ársins. Þess má einnig geta að Embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum lenti í 7. sæti í þessari könnun.

Af hverju stofnun ársins?
Könnun sem þessi gefur góða mynd af starfsumhverfi stofnunarinnar og starfsánægju. Starfsmenn geta notað niðurstöðurnar til að meta eigin vinnustað í samanburði við aðrar stofnanir og fyrirtæki. Einnig er hér ekki síður tækifæri fyrir stjórnendur að gera sér grein fyrir stöðu starfsmannamála í stofnuninni og hvar þeir standa í samanburði við aðra. Það er mikilvægt að stjórnendur taki niðurstöðunum með jákvæðu hugarfari og horfi fyrst og fremst á þessa úttekt sem mikilvægt skref til að bæta og breyta því sem betur má fara í starfinu.

Niðurstöður
4.636 starfsmenn í um 300 stofnunum og fyrirtækjum fengu könnunina senda. Alls bárust 2.958 svör og er svarhlutfallið því 63,8% sem þykir mjög gott. Svör 2.426 þátttakenda eru notuð til greiningar á stofnun ársins, en þátttaka á einstaka stofnunum þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að vera birt á heildarlistanum.

Af þessum 300 stofnunum eru Málefni fatlaðra í Vestmannaeyjum í 28. sæti. Aðeins tvær stofnanir sem sinna málefnum fatlaðra í landinu, málefni fatlaðra á Austurlandi og Vestfjörðum, eru fyrir ofan málefni fatlaðra í Vestmannaeyjum.

Fjallað er um niðurstöður könnunarinnar í nýjasta SFR blaðinu. Einnig er hægt að kynna sér könnunina í heild sinni á vef SFR

Félags- og fjölskyldusvið Vestmannaeyja