Fara í efni
08.05.2009 Fréttir

Fundur um leikskólamál.

Boðað var til fundar með foreldrum barna á leikskólaaldri sl. miðvikudag til að ræða hvernig bregðast megi við afar jákvæðri þróun í bæjarfélaginu, sem er aukin þörf fyrir daggæsluúrræði vegna fjölgunar barna.

Deildu

Elliði Vignisson bæjarstjóri var með framsögu á fundinum þar sem hann fór yfir stöðu mála og greindi frá stefnu Vestmannaeyjabæjar, en hún er að leitast við að bjóða öllum börnum eldri en 18 mánaða leikskólapláss miðað við inntöku að hausti. Fram kom að 16 börn munu ekki komast að í leikskóla í haust ef ekkert verður að gert. Til að bregðast við því bili, sem er milli þjónustu og markmiða Vestmannaeyjabæjar, verður gripið til þess að stofna leikskóladeild fyrir 5 ára börn í Hamarsskóla. Auk þess verður boðið upp á fleiri pláss í Sóla fyrir yngstu börnin. Þar sem þessi breytta staða kallar á að settir verði einhverjir tugir milljóna í viðbót í leikskóla- og daggæsluúrræði var ákveðið að nýta hana til skólaþróunar með því meginmarkmiði að auka þjónustuna og auka valfrelsi foreldra. Leikskóli er fyrsta skólastigið og getur leikskóladeild í Hamarsskóla verið stór þáttur í að minnka skrefið milli skólastiga en það er hluti af stefnu Vestmannaeyjabæjar í þessum efnum. Að loknu erindi Elliða stýrði Páley Borgþórsdóttir formaður fræðsluráðs umræðum. Fundargestir, sem voru rúmlega 80, fengu svör við fjölda spurninga sem fram komu um fyrirkomulag, aðbúnað, faglegt starf, stjórnun o.fl. Megináhersla í svörum bæjarstjóra var sú að í öllum tilvikum og öllu skipulagi er fyrst og fremst hugsað um hag barnanna. Fram kom að skólastjóri GRV stýrir starfseminni en faglegt starf leikskóladeildarinnar verður í höndum leikskólamenntaðs deildarstjóra og reksturinn algerlega á forsendum leikskóla. Sýndar voru tillögur um hvernig auðvelda megi aðgengi að leikskóladeildinni, fæðismál verða í sama fari og verið hefur í Sóla og í Kirkjugerði. Búnaður í skólastofunum verður aðlagaður að leikskólastarfi. Þó að hvergi sé að finna sérstakar afgirtar lóðir í öðrum grunnskólum, sem reka leikskóladeildir, verður það skoðað ef talin er þörf. Rýmið sem leikskólabörnin fá til afnota verður talsvert meira en þau búa við núna. Rætt var um aðra möguleika fyrir nýja leikskóladeild en fram kom að aðrir kostir eru fyrst og fremst bráðabirgðaúrræði, meðan leikskóladeild í Hamarsskóla er framtíðarkostur. Þar er gott rými, frábært, nýtt og aðlaðandi húsnæði og allt til alls. Starfstími verður sá sami og nú er í leikskólunum, bæði daglegur starfstími, sumaropnanir, jól, dymbilvika o.s.frv. Búast má við að dagsskipulag verði í mjög svipuðu formi og nú er að finna meðal elstu barna í leikskólunum, en að sjálfsögðu markast leikskólastarfið og menningin af starfsfólkinu sem starfar á deildinni. Þó má búast við meira vali og auknu flæði milli leik- og grunnskólans hvað varðar undirbúning og allt samstarf.

Viðbrögð foreldra við þeim upplýsingum sem fram komu á fundinum voru afar jákvæð og hvetjandi. Margar góðar ábendingar komu frá foreldrum og sýnt er að mörgum þeirra þykir þessi nýi valkostur afar spennandi. Undirbúningsvinna er komin á fullt. Innritun í hina nýju leikskóladeild er hafin. Foreldrar, sem vilja láta innrita börn sín geta látið skrá þau hjá þjónustuveri Ráðhússins í síma 488-2000. Einnig er hægt að senda tölvupóst til Guðrúnar Helgu leikskólafulltrúa ghb@vestmannaeyjar.is eða Ernu Jóhannesdóttur fræðslufulltrúa erna@vestmannaeyjar.is . Vinsamlegast athugið að innritun skal vera lokið fyrir föstudaginn 15. maí. Eftir það verður farið í að auglýsa eftir starfsmönnum og undirbúa starfið sem búist er við að geti hafist í september.

Í lok fundarins þökkuðu Páley og Elliði fyrir góðan fund og fundarsókn. Fram kom að Vestmannaeyjabær óskar eftir jákvæðu og uppbyggilegu samstarfi við foreldra og væntir þess að tortyggni létti því allar ákvarðanir eru teknar með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.