Fara í efni
08.11.2021 Fréttir

Fréttir úr skólastarfinu

Síðasti mánuður hefur verið viðburðaríkur í GRV. Ýmis konar uppbrot og skemmtanir auk hefðbundinnar kennslu.

Deildu

Yngsta- og miðstig fengu að fara í Höllina til að sjá Gunna og Felix. Þeir félagar slógu heldur betur í gegn þar sem Gunni sagði krökkunum hvernig hann skrifaði bækur og Felix talaði um hvernig fjölskyldur gætu verið mismunandi. Síðan var sungið og dansað og krakkarnir tóku þátt af lífi og sál. Frábær stund.

Í Hamarsskóla fengum við heimsókn frá Hermundi Sigmundssyni, Svövu Hjaltalín og Ársæli Ara Árnasyni en þau eru hluti af þróunarverkefninu Kveikjum neistann. Þau hittu krakkana í 1. bekk í skólanum og voru svo með fund með foreldrum þeirra þar sem rætt var um hugarfar grósku og vaxtar. Að auki var foreldrum 2. - 10. bekkjar boðið á samskonar fund í Barnaskólanum. Mjög gott framtak og skemmtilegir fyrirlestrar þar sem við viljum tileinka okkur gróskuhugarfar í Grunnskóla Vestmannaeyja.

Bókasafn Vestmannaeyja er virkur þátttakandi í verkefninu Kveikjum neistann enda væri varla hægt að auka áhuga á lestri án bókasafns. Starfsfólk safnsins hefur unnið að því hörðum höndum að flokka barnabækur eftir erfiðleikastigi sem auðveldar börnum og foreldrum að velja bækur við hæfi. Bæjarbúar fengu kynningu á þessari vinnu ásamt kynningum frá Kveikjum neistann - teyminu laugardaginn 23. október og var viðburðurinn vel sóttur. Safnið bauð svo 1. bekk sérstaklega velkominn föstudaginn 29. október en þá var Hrekkjavökuþema allsráðandi. Við viljum hvetja alla til að fara og skoða frábæra safnið okkar því þar er alltaf eitthvað nýtt.

Bókasafnið í Barnaskóla er búið að vera með hrekkjavikur á safninu síðustu tvær vikur. Hrekkjavöku lestrarátak á miðstigi, safnið er skreytt þar sem hægt er að snúa hrekkjavökuhjóli og finna hrekkjavökunafnið sitt. Einnig var verið að vinna verkefnið ,,Skrímslið mitt" í pixton.com í samvinnu við upplýsingatækni og endað á því að fara með allt miðstigið í ratleik (goosehace) á Bæjarbókasafnið á samvinnu við upplýsingatækni og starfsmenn á bæjarsafninu. Við mælum með að fylgjast með facebook síðu safnsins, þar er oft mikið um að vera: https://www.facebook.com/groups/3261755190569355

Í íslensku í 9. bekk er búið að vera að vinna í tveggja vikna lotum í ákveðnu þema/efni. Þemað er þrískipt: íslenskar glæpasögur, ljóð og goðsögur. Breakout room er skemmtilegur endir á vinnunni um goðsögurnar. Þar þurfa nemendur að leysa ýmsar þrautir til að losna út úr Herjólfsbæ á sem skemmstum tíma. Þetta hefur vakið mikla lukku hjá nemendum.

Loksins, loksins fengu nemendur ball. Nemendaráð GRV hélt Halloweenball fyrir 8.-10. bekk. Þátttaka var fremur dræm en þeir sem mættu skemmtu sér konunglega.

Halloween diskó á miðstigi var haldið þriðjudaginn 2. nóvember, þar var þátttakan mjög góð og mikið stuð á diskóinu.

Þorgrímur Þráinsson hitti nemendur í 10. bekk, flutti fyrirlestur sinn sem kallast Vertu ástfangin/n af lífinu. Hann hitti einnig 7. bekk og fór vel í tæknina við ritlist með þeim. Þorgrímur færði skólanum bókagjöf, fimm af útkomnum bókum eftir hann sjálfan, og ruku bækurnar út með því sama.

Einnig fengu nemendur á mið -og unglingastigi fyrirlestur frá samtökunum 78.

Gangbrautavarsla 10. bekkinga fór af stað 1. nóvember í fjórða sinn. Þetta skemmtilega, gefandi samfélgaslega verkefni stendur yfir svartasta skammdegið og lýkur 28. febrúar. Það er virkilega gaman að sjá elstu nemendurna okkar í þessu ábyrgðarhlutverki.

Nemendur í 7. - 10. bekk tóku þátt í lýðræðislegri vinnu um framtíðarsýn Vestmannaeyja. Þau komu á sal, hver árgangur í einu og ræddu áhersluþætti í íslensku, stærðfræði og upplýsingatækni og hvernig hægt er að gera betur. Einnig var mikið rætt um hver gildi framtíðarsýnarinnar ættu að vera. Samskonar vinna hefur átt sér stað í öllum árgöngum í skólanum, í formi umræðna í bekk. Margir áhugaverðir punktar sem komið hafa úr þeirri vinnu.

Eins og þið sjáið er alltaf mikið um að vera í skólanum og þetta alls ekki tæmandi listi yfir það starf sem á sér stað á hverjum degi.