Pípulagningamenn eru þessa dagana að leggja allar lagnir að og frá síunum, á meðan rafvirkjar vinna að uppsetningu stjórntöflu fyrir allan búnað sandsíanna. Til að koma síunum fyrir þurfti að saga gat í gólfið sunnan við sundlaugina og þar verður í framtíðinni þjónustulúga sem auðveldar viðhald.
Auk þess hefur verið unnið að viðgerðum á öllum frárennslisrennum í sundlauginni, sem nú hafa verið þéttar betur til að tryggja endingargæði og vatnsheldni. Einnig hefur verið farið yfir jöfnunartankinn og hann styrktur en hann gegnir mikilvægu hlutverki í vatnsjafnvægi laugarinnar.
Eins og staðan er núna er áætlað að verkið verði fullklárað um miðjan febrúar.
Þessar framkvæmdir eru liður í því að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir íbúa og gesti Vestmannaeyja og tryggja að sundlaugin uppfylli ströngustu kröfur um hreinlæti og öryggi.










