Frábær þátttaka var á fræðslufund samstarfshóps Heilbrigðisstofunar Vestmannaeyja, félags-og fjölskyldusviðs Vestmannaeyja og Landakirkju í safnaðarheimilinu í gær þegar Hjalti Jónsson starfandi sálfræðingur við geðsjúkrahúsið í Árósum og doktorsnemi við Árósarháskóla hélt fyrirlestur um kvíða og þunglyndi.
Í fyrirlestrinum byrjaði Hjalti á þvi að kynna helstu einkenni geðraskana en markmið fyrirlestursins var að;
* gera fólki kleift að greina, hjá sjálfu sér eða einhverjum nákomnum, mögulegan vanda í tæka tíð
* auka þekkingu fagaðila á mikilvægi þess að greina vandann sem fyrst þegar fólk með geðraskanir af einhverjum toga leitar sér aðstoðar
* kynna eitthvað af þeim aðferðum sem notaðar eru í meðferð, sérstaklega hugræna atferlismeðferð(HAM) sem allir geta nýtt sér í sínu daglega lífi.
Eins og fram kom í erindi Hjalta líður oft langur tími frá því að einstaklingur gerir sér grein
fyrir vanda sínum, þar til hann opnar umræðu um líðan sína við einhvern sem hann treystir,
þar til greiningu er lokið og viðeigandi meðferð hafin. Þess vegna er svo mikilvægt að við
séum öll vakandi yfir heilsu og velferð hvors annars, styðum einstaklinginn í að leita sér
aðstoðar og aðstoðum hann eftir megni við að sækja viðeigandi þjónustu.
Fræðsla og þekking er fyrsta skrefið í því ferli að eyða fordómum og hefur það verði markmið
samstarfshóps Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, félags-og fjölskyldusviðs Vestmannaeyja
og Landakirkju með fræðslufundum sínum á undanförnum árum að auka þekkingu um ýmis
vandamál sem kalla má samfélagsleg og allir geta lent í einhvern tímann á lífsleiðinni. Þannig
hefur samstarfshópurinn staðið að fyrirlestrum um sorg og missi, kynferðisofbeldi og kúgun
og núna kvíða og þunglyndi. Yfir vetrarmánuðina hafa síðan fulltrúar þessa samstarfshóps
leitt nærhópastarf ef áhugi hefur verið fyrir hendi, s.s. hópastarf vegna sorgar og missis og vegna kynferðisofbeldis.
Á fyrirlesturinn í gær mættu um 150 manns og hlýddu á fyrirlesturinn um kvíða og þunglyndi.
Þessir aðilar hafa væntanlega allir farið með aukna þekkingu um þennan vanda af fundinum
og deilda honum með vinum, vinnufélögum og sínum nánustu. Þannig dreifum við þekkingunni áfram og sláum á þá fordóma sem þessum heilbrigðisvanda fylgir. Eins og fram kom á fundinum, þá er vilji til þess að fara af stað með hópastarf í haust í kjölfar þessa fyrirlesturs og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband og geta komið hugmyndum sínum á framfæri til eftirfarandi tengiliði hera@vestmannaeyjar.is¸ srthorvaldur@simnet.is, gbhiv@eyjar.is
Framkvæmdastjóri félags-og fjölskyldusviðs
Hera Ósk Einarsdóttir.