Fara í efni
13.01.2026 Fréttir

Forsetahjón í opinberri heimsókn til Vestmannaeyja – tveir viðburðaríkir dagar

Forsetahjónin voru í opinberri heimsókn í Eyjum dagana 8. og 9. janúar sl. Heimsóknin hófst síðdegis á fimmtudag 8. janúar með stuttri móttökuá Vestmannaeyjaflugvelli.Þar tóku á móti forsetahjónunumfulltrúar Vestmannaeyjabæjar, meðal annars Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar, Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs og Drífa Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Tveir fulltrúar yngri kynslóðarinnar afhentu forseta blóm og nemandi úr Tónlistarskóla Vestmannaeyja lék á þverflautu lagið Kvöldsigling eftir Gísla Helgason. 

Deildu

Móttaka í Sagnheimum og kvöldverður í Eldheimum 

Fyrsti viðkomustaður eftir móttöku á flugvellinum var byggðasafnið Sagnheimar þar sem bæjarbúum var boðið móttöku.Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnarbauð gesti velkomna og börn á leikskólanum Sóla sungu tvö lög. Forseti flutti ávarp og færði bæjarbúum ljósmynd frá heimsókn dönsku konungshjónanna árið 1986. Í ávarpi sínu ræddi forseti meðal annars um eldgosið 1973 og seiglu Eyjamanna: 

 
„Hér hefur öflugt atvinnulíf blómstrað að nýju, framsækin útgerð og vinnsla, og hér starfar hugsjónafólk og frumkvöðlar sem hafa sýnt að sjálfsvirðing og staðarstolt eru dýrmætur höfuðstóll.“ 
Ávarpið í heild má lesa hér á vef embættisins. 

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri ávarpaði jafnframt samkomuna og færði forsetahjónum gjafir frá Vestmannaeyjabæ. Dagskránni lauk með tónlistarflutningi nemenda úr Tónlistarskólanum. Um kvöldið sátu forsetahjón kvöldverð í Eldheimum í boði bæjarstjórnar. 

Heimsókn í skóla og stofnanir 

Á föstudagsmorgun hófst dagskráin í leikskólanum Kirkjugerði þar sem börn í grímubúningum tóku á móti forsetahjónunum og öðrum gestum. Forsetahjónin kynntu sér starfsemi skólans og hlýddu á söng barna. Næst var Framhaldsskóli Vestmannaeyja heimsóttur þar sem forseti ávarpaði nemendur á sal skólans og ræddi meðal annars um verkefnið „Riddarar kærleikans“. Þá var verknám skólans kynnt en skólinn hlaut nýlega Íslensku menntaverðlaunin fyrir það. 

Laust fyrir hádegi lá leiðin í Grunnskóla Vestmannaeyja – Barnaskóla. Þar kynnti skólastjóri verðlaunaverkefnið „Kveikjum neistann“ og forsetahjón hittu nemendur í 5. bekk sem hafa unnið að verkefni um sögu forsetaembættisins. 

Í hádeginu sátu forsetahjónin fund með bæjarstjórn í Ráðhúsinu r þar sem farið var yfir stöðu sveitarfélagsins, helstu áskoranir ræddar og framtíðarsýn kynnt. 

Fyrirtæki, nýsköpun og menning 

Síðdegis heimsóttu forsetahjónin frystihús Ísfélags Vestmannaeyja, elsta starfandi hlutafélag landsins, og kynntu sér sjálfvirka vinnsluferla. Þá var farið í höfuðstöðvar Laxeyjar í botni Friðarhafanar og starfsemin og uppbyggingráform kynnt. Loks heimsóttu hjónin Þekkingarsetur Vestmannaeyja þar sem þau hittu frumkvöðla og kynntu sér rannsóknar- og menntastarfsemi. Þar kynntu ungir frumkvöðlar verkefni um þrívíddarprentun húsa sem fóru undir hraun í gosinu 1973. Forsetahjón heilsuðu einnig upp á mjaldrana Litlu Grá og Litlu Hvít sem eru í umsjón Sea Life Trust. 

Meðal annarra viðkomustaða voru vinnu- og hæfingarstöðin Heimaey, Fágætissafnið, Bókasafnið í Safnahúsinu, Týsheimilið og dagdvölin Bjargið. Um kvöldið tóku forsetahjón þátt í Þrettándagöngu ÍBV þar sem tröll og jólasveinar fylgdu göngunni að bálkesti við Löngulág. 

Vestmannaeyjabær þakkar forsetahjónunum innilega fyrir komuna til Vestmannaeyja og þann einlæga áhuga sem þau sýndu okkur Eyjamönnum. Það var ánægjulegt að fá að kynna þeim okkar einstaka samfélag og upplifa samveru sem skilur eftir hlýjar minningar.  

Vestmannaeyjabær þakkar einnig öllum þeim aðstoðuðu og tóku á móti forsetahjónunum fyrir þeirra framlag. 

Fleiri myndir frá heimsókninni er hægt að sjá hér á heimasíðu forsetaembætissins.